Átta látnir í eldsvoða nálægt Moskvu

Eldur kom upp í átta hæða skrifstofuhúsnæði.
Eldur kom upp í átta hæða skrifstofuhúsnæði. Samsett mynd

Að minnsta kosti átta manns hafa látið lífið í eldsvoða í stóru skrifstofuhúsnæði nálægt Moskvu í dag, að því er fram kemur í frétt ríkismiðils Rússa. Byggingin hefur meðal annars hýst rannsóknarstofur sem þróuðu rafeindabúnað fyrir rússneska flugherinn.

Viðbragðsaðilar segja að aðeins einum hafi verið bjargað úr eldsvoðanum, sem varð í byggingu í Fryazino um 25 km norðaustur af Moskvu, höfuðborg Rússlands.

Tveir létu lífið eftir að hafa stokkið út um glugga og sex til viðbótar létust þegar skrifstofa hrundi í eldinum, að sögn starfsmanns viðbragðsaðila á svæðinu.

Á myndskeiði má sjá þykkan reyk rísa frá efri hæð íbúðarhússins, sem er átta hæðir.

Starfsemi í húsnæðinu óljós

Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að misvísandi lýsingar berist af tilgangi hússins. Það hýsti eitt sinn Platan-rannsóknarstofnunina, að sögn Tass ríkismiðilsins.

Í yfirlýsingu frá Ruselectronics, rafeindatæknisamtökum í eigu rússneskra yfirvalda, segir að húsið hafi verið í einkaeigu frá því um árið 1990.

Fjölmiðlar sem setja sig upp á kant við yfirvöld í Rússlandi greindu hins vegar nýlega frá því að Platan hefði verið í húsinu allt að árinu 2023. 

Platan-stofnunin hefur meðal annars framleitt rafeindabúnað í rússneskar orrustuflugvélar og flugöryggiskerfi.

34 ára maður særður

Andrey Vorobyov héraðsstjóri segir að 34 ára gamall maður hefði verið fluttur á sjúkrahús í alvarlegu ástandi, en tveir slökkviliðsmenn væru einnig í aðgerð vegna áverka sem þeir hlutu í eldsvoðanum.

Að sögn viðbragðsaðila á svæðinu var maðurinn sá eini sem bjargaðist úr eldsvoðanum.

Að sögn ráðuneytisstjóra neyðarhjálpar voru yfir 100 viðbragðsaðilar og tvær þyrlur að störfum við að ráða niðurlögum eldsins.

Ekki er ljóst hvað olli eldsvoðanum en sjónarvottur sagði í samtali við Tass að hann hefði brotist út á sjöttu hæð áður en hann breiddist út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert