Innleiða dauðarefsingu fyrir að styðja Taívan

Fólk sem styður sjálfstæði Taívans getur átt yfir höfði sér …
Fólk sem styður sjálfstæði Taívans getur átt yfir höfði sér dauðarefsingu í Kína. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa formlega gefið út að allir þeir sem ötult styðja sjálfstæði Taívans geta átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Um er að ræða fyrsta skipti sem kínversk stjórnvöld opinberlega skilgreina stuðning við sjálfstæði Taívans frá stjórnvöldum í Peking sem glæp.

Í áliti sem Alþýðudómstóllinn, saksóknaraembætti alþýðunnar, almannaöryggisráðuneytið, ríkisöryggisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið sendu frá sér síðastliðinn föstudag voru gefnar út leiðbeiningar um hvernig eigi í samræmi við lög að refsa hörðum stuðningsmönnum sjálfstæðis Taívans fyrir að „kljúfa landið og hvetja til aðskilnaðar“.

„Það er aðeins eitt Kína í heiminum og Taívan er óaðskiljanlegur hluti af yfirráðasvæði Kína. Mjög lítill fjöldi sem styður „sjálfstæði Taívans“ hefur stundað aðskilnaðaraðgerðir, sem stofna alvarlega friði og stöðugleika á Taívan-sundi í hættu og skaða alvarlega sameiginlega hagsmuni samlanda beggja vegna sundsins og grundvallarhagsmuni kínversku þjóðarinnar,“ segir í álitinu.

Lífstíðardómur og dauðarefsing

Skilgreiningarnar á því sem má flokka sem brot gegn ákvæði laga eru mjög víðar og telst meðal annars glæpur að hvetja til sjálfstæðis Taívans með því að vinna að því að Taívan fái aðild að alþjóðasamtökum. Jafnframt er talinn glæpur að hvetja til þess að alþjóðasamfélagið samþykki að til verði tvö ríki sem megi kalla Kína eða eitt ríki undir heitinu Kína og annað undir merkjum Taívans.

Þá sé einnig óheimilt að eiga aðild að eða taka þátt i stofnun samtaka sem styðja sjálfstæði Taívans, auk þess sem talið er glæpur að styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Taívans frá Kína.

Þeir sem brjóta gegn þeim ákvæðum sem lýst er í áliti kínverskra stjórnvalda „skulu dæmdir í lífstíðarfangelsi eða fangelsi í tíu ár og lengra fyrir höfuðpaurana eða þá sem fremja alvarlega glæpi. Þeir sem valda ríkinu og þjóðinni sérstaklega alvarlegum skaða og brotin svívirðileg geta verið dæmdir til dauða.“

Þeir sem eiga aðild að aðgerðum sem styðja sjálfstæði Taívans geta þó átt yfir höfði sér fangelsi í að minnsta kosti þrjú ár en ekki lengur en tíu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert