Líkbrennslu brigslað um okur

Líkbrennslan Vestfold krematorium í Sandefjord í Noregi er sökuð um …
Líkbrennslan Vestfold krematorium í Sandefjord í Noregi er sökuð um okur með því að innheimta fullt verð á meðan hún nýtur góðra afsláttarkjara í Skien í Telemark.

Líkbrennslan Vestfold krematorium í norska bænum Sandefjord hefur orðið uppvís að því að okra á eigendum sínum, sveitarfélögunum Tønsberg, Sandefjord, Horten og Larvik, með nýstárlegum hætti eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK hefur fengið staðfest.

Hefur brennslan verið lokuð um hríð vegna endurbóta á húsnæði hennar og jarðneskar leifar íbúa Vestfold-fylkis því verið sendar með vörubifreiðum til bæjarins Skien í nágrannafylkinu Telemark til brennslu.

Sá ferðamáti varð raunar einnig fréttaefni fyrr í mánuðinum er upp komst að átta lík voru flutt saman í hverri vörubifreið, alls um 20 lík á viku, 60 kílómetra leið á umferðarþungri E18-brautinni sem þótti brjóta freklega gegn þeim rétti hverrar manneskju að yfirgefa jarðvistina með reisn.

Var fyrirkomulagið harðlega gagnrýnt í frétt NRK þótt þar kæmu engir aðstandendur látinna að máli við ríkisútvarpið heldur Tom Sletsjøe, eigandi útfararstofunnar Sletsjøe begravelsesbyrå í Larvik sem kalla mætti keppinaut Vestfold krematorium.

Verulegur afsláttur í Skien

En aftur að okurmálinu. Fyrir hverja kistu sem bálstofan í Vestfold sendir í brennslu til Skien veitir síðarnefnda stofan 2.700 norskar krónur í afslátt, jafnvirði 35.640 íslenskra króna. Fyrir brennslu í Vestfold tekur stofan þar 10.000 krónur (132.000 ISK) fyrir hverja kistu. Verð Skien krematorium fyrir að brenna jarðneskar leifar íbúa annarra sveitarfélaga er 7.945 krónur (104.874 ISK) samkvæmt gjaldskrá.

Samningur Vestfold-stofunnar við Skien krematorium hljóðar hins vegar upp á 5.210 krónur (68.772 ISK) fyrir hverja brennslu. Þetta staðfestir sóknarnefnd Skien við NRK. Þrátt fyrir hvort tveggja ódýrari þjónustu samkvæmt gjaldskrá og veglegan afslátt rukkar Vestfold krematorium eigendur sína, sveitarfélögin fjögur, um fullt verð, 10.000 norskar krónur, fyrir hverja kistu sem þar fer í ofninn.

Á þessu segir Monika Holm Svinsholt, framkvæmdastjóri Vestfold-brennslunnar, eðlilega skýringu. „Einn okkar starfsmanna vinnur um þessar mundir fullt starf við brennsluna í Skien. Auk þess erum við með starfsmann í skrifstofustörfum sem hefur starfsstöð í Vestfold en vinnur þó með líkflutningana til Skien,“ segir hún við NRK.

Auðgist ekki á afslættinum

Kveður hún einsýnt að senda hefði þurft starfsmenn heim á hlutalaunum, úrræði sem í Noregi heitir permittering, væri þeim ekki kleift að starfa við brennsluna í Skien á meðan framkvæmdir við húsnæði brennslunnar í Sandefjord standa yfir.

Vísar hún því alfarið á bug að hennar fyrirtæki hagnist á hinu tímabundna samstarfi við líkbrennsluna í Skien. „Laun og annar kostnaður, til dæmis við öskuker, gerir það að verkum að við komum ekki út í neinum hagnaði þótt við fáum brennt í Skien með afslætti,“ segir framkvæmdastjórinn.

Marius Roheim Aarvold, bæjarstjóri í Skien, staðfestir við NRK að bæjarstjórn þar hafi ákveðið líkbrennsluverðið 7.945 krónur. Honum var hins vegar ekki kunnugt um, þegar NRK hafði samband við hann, að kirkjuvörðurinn í Skien hefði veitt líkbrennslunni í Vestfold umræddan afslátt.

„Vestfold krematorium er nú í þeirri aðstöðu að vera hjálpar þurfi. Líkbrennslan í Skien réttir þút þá hjálparhönd,“ segir Aarvold og telur ekki óeðlilegt að kirkjuvörðurinn hafi ekki kynnt bæjarstjórn afsláttinn.

„Eins og þetta horfir við frá mínum bæjardyrum séð rúmast þetta innan þeirra heimilda sem kirkjuvörðurinn hefur. Svo lengi sem þetta kemur ekki fjárhagslega við kaunin á íbúum Skien finnst mér þetta í góðu lagi,“ segir bæjarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert