Banna evrópska fjölmiðla

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP/Valery Sharifulin

Stjórnvöld í Rússlandi gáfu það út í dag að þau muni hindra aðgang að 81 evrópskum fjölmiðli þar í landi. Um er að ræða „hefndaraðgerð“ eftir að Evrópusambandið tók ákvörðun um að banna útsendingu nokkurra rússneskra miðla innan lögsögu þess. 

Í maí tók Evrópusambandið ákvörðun um að hindra aðgang að fjórum miðlum sem eru undir stjórn rússneskra yfirvalda. Ástæðan var að umræddir miðlar hafi „skipt sköpum í að ná fram stuðningi við og styðja við“ árásir Rússa í Úkraínu.

Fulltrúi rússneskra stjórnvalda segir að með banni þeirra á evrópskum miðlum sé verið að bregðast við þessu.

Meðal þeirra fjölmiðla sem eru á bannlista rússneskra stjórnvalda eru fréttveita AFP, franski fjölmiðilinn Le Monde og Der Spiegel frá Þýskalandi.

Kenna Evrópusambandinu um

„Verið er að innleiða gagntakmarkanir á aðgengi að fjölmiðlum frá aðildarríkjum ESB frá rússnesku yfirráðasvæði,“ sagði í tilkynningu frá rússneska utanríkisráðuneytinu. Þar kom jafnframt fram að stjórnvöld kenni Evrópusambandinu um ákvörðunina.

Þá kom fram að stjórnvöld muni aflétta hömlunum ef Evrópusambandið afturkalli bannið á rússneskum fjölmiðlum. 

Rússar hafa þegar haft takmarkaðan aðgang að mörgum vestrænum fjölmiðlum eftir að þeir hófu innrás sína í Úkraínu. Vestrænir samfélagsmiðlar hafa sömuleiðis verið bannaðir þar í landi.

Innlendir fjölmiðlar í Rússlandi, sem gagnrýna stjórn Vladimírs Pútíns forseta og sókn hans í Úkraínu, hafa einnig verið bannaðir og margir óháðir blaðamenn hafa flúið land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert