Maður er í haldi lögreglunnar í austurumdæminu í Noregi eftir að eldur kom upp í íbúðarhúsi í Aurskog-Høland í Akershus-fylki um klukkan hálffimm í nótt að norskum tíma.
Grunar lögregla manninn um tilraun til þess sem enn kallast mordbrann í Noregi þótt hugtakið hafi nú verið numið úr lögum, en þess sáust síðast dæmi í norsku hegningarlögunum frá 1905 og var hugtakið einnig til í gömlu íslensku lagamáli sem morðbrenna eða vígabrenna.
Fjórar manneskjur voru í húsinu þegar eldurinn kom upp og kveður Ronny Samuelsen lögregluvarðstjóri augljóst að eldurinn hafi verið tendraður með vitund og vilja. Hittist grunaði fyrir í nágrenninu er lögregla kom á vettvang og þótti henni ástæða til að taka hann höndum.
Eftir því sem Samuelsen greinir staðarblaðinu Romerikes Blad frá heyrðu þeir, sem í húsinu voru, smell eða högg áður en eldurinn kviknaði og komu sér þá út af eigin rammleik.
Samuelsen vill ekki tjá sig frekar um grunaða og ber við rannsóknarhagsmunum.
NRK
Romeriks Blad