Hefja viðræður um inngöngu Úkraínu í ESB

Volodymir Zelensky, forseti Úkraínu, og Ursula von der Leyen, forseti …
Volodymir Zelensky, forseti Úkraínu, og Ursula von der Leyen, forseti Evrópuráðsins. AFP

Evrópusambandið hóf í dag samningaviðræður við Úkraínu og Moldóvu um aðild landanna að sambandinu.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir viðræðurnar marka söguleg tímamót en Úkraína og Moldóva sóttu bæði formlega um að gerast aðilar að sambandinu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu árið 2022. 

Viðræðurnar eru þó aðeins upphaf aðildarferlisins og alls óvíst hvort að löndin hljóti inngöngu í sambandið að þeim loknum. Strangt ferli er fram undan, en fyrsta skref þess er endurskoðun á löggjöf landanna og verður sambærileiki við reglur Evrópusambandsins metinn.

Haft er eftir úkraínska embættismanninum Olgu Stefanishynu, í frétt AFP, að samningaviðræðurnar séu upphaf mikils umbótatímabils innan Úkraínu og að landið myndi ljúka þeim fyrir árið 2030.

Bætast í hóp fleiri ríkja

Úkraína og Moldóva, bætast með þessu í hóp landa á borð við Albaníu, Georgíu og Serbíu sem öll eiga nú í aðildarviðræðum á einhverju stigi. 

Þó svo að löndin komi til með að uppfylla allar formlegar inngöngukröfur er aðild þó ekki þar með í höfn, heldur þarf einnig samþykki ráðherraráðs Evrópusambandsins, Evrópuþingsins og þjóðþinga allra aðildarríkja Evrópusambandsins. 

Viðbúið er að aðildin strandi til að mynda hjá Ungverjum, en ungversk stjórnvöld hafa lengi verið andsnúin aðild Úkraínu að sambandinu. Ungverjaland tekur einnig við forsæti sambandsins í næsta mánuði en Viktor Orban hefur hótað því að beita sér gegn umsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert