Játar sök og verður ekki framseldur

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur verið látinn laus úr fangelsi. Hann er sagður hafa gert samkomulag við bandarísk yfirvöld og með því komist hann hjá framsali.

Assange, sem er 52 ára gamall, var ekið á Stansted-flugvöllinn í Lundúnum þar sem hann fór um borð í flugvél. Fréttastofa AFP hefur eftir taílenskum embættismanni að vélin millilendi í Bangkok áður en hún heldur til Norður-Maríanaeyja í Kyrrahafi.

Julian Assange er frjáls,“ skrifar WikiLeaks á samfélagsmiðilinn X en Assange hefur verið í haldi í Bretlandi í fimm ár þar sem hann hefur barist fyrir því að verða ekki framseldur til Bandaríkjanna, sem hafa reynt að sækja hann til saka fyrir að hafa upplýst um hernaðarleyndarmál.

Assange mun lýsa sig sekan um eina ákæru um samsæri sem snýr að birtingu trúnaðargagna samkvæmt skjali sem lagt var fyrir dómstóla á Norður-Maríanaeyjum. Þetta er liður í sátt sem hann gerir við yfirvöld í Bandaríkjunum til að komast hjá framsali til Bandaríkjanna.

Samkvæmt dómskjölum fer Assange fyrir dóm á Norður-Maríanaeyjum á morgun og er búist við því að hann verði dæmdur í fimm ár og tveggja mánaða fangelsi en það er sá tími sem hann hefur verið í varðhaldi á Bretlandi. Það þýðir að hann geti haldið aftur til heimalands síns, Ástralíu.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert