SÞ fagna lausn Assange

Bú­ist við því að Julian Assange verði dæmd­ur í fimm …
Bú­ist við því að Julian Assange verði dæmd­ur í fimm ár og tveggja mánaða fangelsisvist, en þann tíma hefur hann þegar afplánað. Líklega yrði hann þá frjáls sinna ferða og heldur hann því næst sennilega til Ástralíu. AFP/Jack Taylor

Sameinuðu þjóðirnar fagna því að ástralski blaðamaðurinn Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hafi verið látinn laus úr haldi í Bretlandi. Assange er talinn munu játa á sig sök að hluta til og vera dæmdur í fangelsisvist sem hann hefur þegar afplánað. 

Eins og mbl.is greindi frá í morgun hefur Assange verið lát­inn laus úr fang­elsi í Bretlandi og er talinn hafa gert sam­komu­lag við banda­rísk yf­ir­völd og með því kom­ist hjá framsali.

„Við fögnum því að Julian Assange hefur verið látinn laus úr varðhaldi í Bretlandi,“ segir Liz Throssell, talskona mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, í tölvupósti til fréttaveitunnar AFP. Hún bætir því við að endanleg lausn bíði enn samþykkis.

Hinum 52 ára Assange var ekið á Stan­sted-flug­völl­inn í Lundúnum í morgun þar sem hann fór um borð í flug­vél. Vél­in milli­lendir í Bangkok áður en hún held­ur til Norður-Marí­ana­eyja í Kyrra­hafi.

Hefur þegar afplánað dóminn sem er enn ekki fallinn

 „Eins og við höfum ítrekað bent á vakti þetta mál upp ýmsar áhyggjur af mannréttindum,“ segir Throssell enn fremur.

Assange mun að öllu óbreyttu lýsa sig sek­an um eina ákæru um sam­særi sem snýr að birtingu trúnaðargagna sam­kvæmt skjali sem lagt var fyr­ir dóm­stóla á Norður-Marí­ana­eyj­um en eyjaklasinn á í sérstöku stjórnmálasambandi við Bandaríkin. 

Þetta er liður í sátt sem hann ger­ir við yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um til að kom­ast hjá framsali til Banda­ríkj­anna.

Sam­kvæmt dóms­kjöl­um fer Assange fyr­ir dóm á Norður-Marí­ana­eyj­um á morg­un og er bú­ist við því að hann verði dæmd­ur í fimm ár og tveggja mánaða fang­elsi en það er sá tími sem hann hef­ur þegar verið í varðhaldi á Bretlandi.

Það þýðir að hann geti haldið aft­ur til heimalands síns, Ástr­al­íu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert