Sameinuðu þjóðirnar fagna því að ástralski blaðamaðurinn Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hafi verið látinn laus úr haldi í Bretlandi. Assange er talinn munu játa á sig sök að hluta til og vera dæmdur í fangelsisvist sem hann hefur þegar afplánað.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun hefur Assange verið látinn laus úr fangelsi í Bretlandi og er talinn hafa gert samkomulag við bandarísk yfirvöld og með því komist hjá framsali.
„Við fögnum því að Julian Assange hefur verið látinn laus úr varðhaldi í Bretlandi,“ segir Liz Throssell, talskona mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, í tölvupósti til fréttaveitunnar AFP. Hún bætir því við að endanleg lausn bíði enn samþykkis.
Hinum 52 ára Assange var ekið á Stansted-flugvöllinn í Lundúnum í morgun þar sem hann fór um borð í flugvél. Vélin millilendir í Bangkok áður en hún heldur til Norður-Maríanaeyja í Kyrrahafi.
„Eins og við höfum ítrekað bent á vakti þetta mál upp ýmsar áhyggjur af mannréttindum,“ segir Throssell enn fremur.
Assange mun að öllu óbreyttu lýsa sig sekan um eina ákæru um samsæri sem snýr að birtingu trúnaðargagna samkvæmt skjali sem lagt var fyrir dómstóla á Norður-Maríanaeyjum en eyjaklasinn á í sérstöku stjórnmálasambandi við Bandaríkin.
Þetta er liður í sátt sem hann gerir við yfirvöld í Bandaríkjunum til að komast hjá framsali til Bandaríkjanna.
Samkvæmt dómskjölum fer Assange fyrir dóm á Norður-Maríanaeyjum á morgun og er búist við því að hann verði dæmdur í fimm ár og tveggja mánaða fangelsi en það er sá tími sem hann hefur þegar verið í varðhaldi á Bretlandi.
Það þýðir að hann geti haldið aftur til heimalands síns, Ástralíu.