Strangtrúaðir skulu í herinn

Hæstiréttur Ísraels telur engin lagaleg rök firra strangtrúaða gyðinga herskyldu, …
Hæstiréttur Ísraels telur engin lagaleg rök firra strangtrúaða gyðinga herskyldu, þjóðin eigi í krefjandi styrjöld og við því þurfi að bregðast með varanlegri lausn. AFP/Jack Guez

Strangtrúaðir gyðingar skulu ekki njóta undanþágu frá herskyldu í Ísrael. Sá var dómur Hæstaréttar landsins sem kveðinn var upp í morgun um þrætuepli sem stefndi ríkisstjórnarsamstarfi Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra nánast í voða er stjórnin tókst á um málefnið í miðjum stríðsrekstri á Gasasvæðinu.

New York Times greinir frá.

Fjölskipaður Hæstiréttur, níu dómarar, var einróma í þeirri afstöðu sinni að enginn lagalegur grundvöllur fyndist sem réttlætti þá löngu hefð að veita gyðingum sem lærðu til þess að geta kallað sig strangtrúaða (e. ultra-Orthodox) undanþágu frá herskyldu.

Byggði dómurinn á lögjöfnun, með þeim hætti að þar sem enginn lagabókstafur gerði greinarmun á gyðingum og öðrum karlmönnum á herskyldualdri skyldu almenn lagaákvæði um herskyldu í Ísrael gilda um strangtrúaða gyðinga sem aðra.

Urgur í almenningi

Gyðingar, jafnt karlar sem konur, hafa herskyldu í Ísrael og hefur löngum verið deilt um hina hefðbundnu undantekningu til handa strangtrúuðum gyðingum. Hafa ísraelskir borgarar, sem ekki játa neina ákveðna trú, einkum verið iðnir við að finna undanþágunni flest til foráttu.

Nú, er stríðið á Gasa hefur staðið á níunda mánuð, hefur gætt vaxandi ólgu og reiði meðal ísraelsks almennings vegna þeirrar undanþágu er strangtrúaðir gyðingar hafa notið fram til þessa. Er þeim legið á hálsi fyrir að vera þess valdandi að tugþúsundir varaliðsmanna – borgara sem ekki eru hermenn en má kalla til og senda á vígvöllinn í neyð – hafa verið sendir margoft til stríðsátaka sem kostað hafi hundruð þjónandi hermanna lífið.

Tvíeggjað sverð

„Á þessum tímum, mitt í krefjandi styrjöld, verður byrði þessa ójafnréttis þyngri en nokkru sinni og krefst varanlegrar lausnar á úrlausnarefninu sem fyrir liggur,“ segir í dómsorði Hæstaréttar.

Netanjahú forsætisráðherra hefur kallað eftir löggjöf sem í meginatriðum staðfesti undanþágu frá herskyldu fyrir strangtrúaða. Leynist þar þó tvíeggjað sverð þar sem verði honum að ósk sinni hættir hann á að ráðherrar í stjórn hans leggist gegn lagasetningunni og stefni stjórnarsamstarfinu í óefni til að bregðast við háværum röddum almennings og reiði yfir því hvernig stjórnin hefur spilað sínum spilum út í hernaðinum á hendur Hamas-hryðjuverkasamtökunum palestínsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert