Sæta ákæru fyrir „hreina fagmennsku“

Lögreglumenn flokka, telja og vigta efnin sem fundust í 400 …
Lögreglumenn flokka, telja og vigta efnin sem fundust í 400 kössum í lagerhúsnæði í Kolding í fyrrasumar, sterar, fíkniefni og „læknadóp“. Ljósmynd/Danska lögreglan

Fimm manns sæta nú ákæru fyrir Héraðsdómi Kolding í Danmörku í refsimáli sem snýst um nokkuð sem Malou Engel, saksóknari lögregluembættisins á Suður-Jótlandi, kallar „hreina fagmennsku“ (d. topprofessionel), svo metur hún utanumhald þeirrar starfsemi sem fimmmenningarnir þurfa nú að svara fyrir.

Aðalákærði er fertugur karlmaður frá Flensborg sem ákærður er fyrir að smygla 20,5 tonnum af ólöglegum efnum til Danmerkur. Hinir fjórir, sem eru á aldrinum 36 til 47 ára, eru ákærðir fyrir samverknað hvað smyglið varðar, en auk þess sölu þeirra efna sem flutt voru inn.

Kennir þar ýmissa grasa, fíkniefni, anabólísk steralyf og hefðbundin lyf til lækninga fengust keypt af hinum ákærðu í máli sem er allra stærsta fíkniefna- og lyfjamál í sögu Danmerkur, en aðalmeðferðin hófst á mánudagsmorgun fyrir réttinum í Kolding.

Krefst allt að fimmtán ára

Leggur Engel fram refsikröfu sem er álíka fáheyrð í dönskum fíkniefnamálum og magnið, en saksóknarinn krefst þrettán til fimmtán ára fangelsisdóms yfir aðalákærða, rökstutt með því að starfsemin hafi staðið í fleiri ár og það mál sem nú er til meðferðar nái því aðeins til brots af því sem innflutt hafi verið og selt gegnum tíðina.

Þessu mótmælir Mads Kruse, verjandi fertuga mannsins, harðlega og kveður refsikröfuna taka út yfir allan þjófabálk, sjö til átta ára fangelsi sé algjört hámark fyrir brotið.

Í stuttu máli er forsaga málsins sú að lögreglan á Jótlandi uppgötvaði í fyrrasumar 400 kassa sem samtals innihéldu átta tonn af þeim efnum sem ákært er fyrir. Fundust kassarnir í lagerhúsnæði í Kolding og telur saksóknari að í því húsnæði hafi geymsla og pökkun efnanna í söluumbúðir farið fram allar götur síðan á öndverðu ári 2019.

Hluti af skipulögðum afbrotavef

Grundvallarspurning við aðalmeðferðina verður að hve miklu leyti fimmmenningarnir höfðu skipulagt samstarf sín á milli við starfsemina.

Engel krefst dóms fyrir skipulagða glæpastarfsemi þar sem starfsemi ákærðu hljóti að hafa verið skipulögð í þaula auk þess sem mun fleiri hafi verið þeim innan handar við sölu og dreifingu á því magni sem raun ber vitni.

Kruse hangir hins vegar á því eins og hundur á roði að skjólstæðingur hans hafi einn rekið þá starfsemi sem fram fór á lagernum í Kolding. Hann hafi starfað fyrir baktjaldamann og ekki átt í neinu skipulögðu samstarfi við meðákærðu sem hafi aldrei haft vitneskju um hvað lagerinn geymdi, þeir hafi eingöngu aðstoðað við að geyma nokkra kassa og sendast með pakka.

Saksóknari vísar kenningum verjandans algjörlega á bug. „Hér er um slíkt umfang skipulagðrar glæpastarfsemi að ræða að enginn starfrækir slíkt upp á eigin spýtur. Svona lagað framkvæmir maður sem hluti af skipulögðum afbrotavef,“ segir Engel.

Reiknað er með dómsuppkvaðningu í málinu 5. júlí.

DR

TV SYD

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert