Saksóknari strand í músadrápi

Hin hugvitsamlega músagildra Lindu Strand í Mæri og Raumsdal vakti …
Hin hugvitsamlega músagildra Lindu Strand í Mæri og Raumsdal vakti athygli lögreglunnar á staðnum sem gerði henni sekt. Nú hefur Hæstiréttur átt síðasta orðið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hæstiréttur Noregs sýknaði í dag Lindu Strand, þriggja barna einstæða móður í Surnadal í norska fylkinu Mæri og Raumsdal, af kröfu ákæruvaldsins um sektargreiðslu fyrir að drekkja hundruðum músa í fötu með heimatilbúinni músagildru eftir að heimiliskettinum féll allur ketill í eld yfir músaganginum.

Eins og mbl.is greindi frá nýlega vakti málið gríðarlega athygli meðal norsks almennings og brá Hæstiréttur á það ráð að sýna málsmeðferðina í beinu streymi þar sem færri komust að en vildu í dómsal þessa æðsta dómstóls landsins.

„Mér er stórlega létt og ég gleðst yfir því að hafa farið svona langt með málið,“ segir Strand í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en eftir að lögregla frétti af gildrunni á Facebook heimsótti hún Strand og gerði henni 6.000 króna sekt, jafnvirði um 80.000 íslenskra króna, fyrir athæfi sem bryti gegn kröfu dýraverndarlaga um að dýrum skuli sálgað á svo mannúðlegan hátt sem kostur sé.

Regluverkið leyfi þó eitur

Þessu vildi Strand ekki una og gekk málið þar með til héraðsdóms sem dæmdi sekt­ina rétt­mæta. Enn vildi Strand ekki greiða og áfrýjaði til Lög­manns­rétt­ar Frostaþings sem neitaði þegar að taka við svo ómerki­legu máli. Strand kærði þann úr­sk­urð til Hæsta­rétt­ar sem skikkaði milli­dóm­stigið til að dæma í mál­inu. Niðurstaða þess dóms­máls varð sú sama og í héraði og þar með aðeins æðsti dóm­stóll lands­ins eft­ir.

„Hæstiréttur leggur til grundvallar þær aðstæður sem konan var í og að fötugildrur hafa verið mikið notaðar til að vinna bug á stórum músavandamálum,“ segir í dómsorði Hæstaréttar. „Regluverkið leyfir þar að auki notkun eiturs, ekki síst í höndum fagfólks, þrátt fyrir þær þjáningar sem það bakar dýrunum. Hæstiréttur telur konuna ekki hafa bakað sér refsingu með notkun gildrunnar, þrátt fyrir að hún hafi ekki fyrst gripið til þeirra valkosta sem lögmannsrétturinn vísaði til,“ segir enn fremur.

Forstjóri Matvælaeftirlitsins fáglýjaður

Sneri Hæstiréttur þar með dómum beggja neðri dómstiganna, héraðsdóms og lögmannsréttar, með þeirri niðurstöðu að ákvæði dýraverndunarlaganna nái ekki yfir meindýr og mýs.

Magne Nyborg saksóknari vildi ekki tjá sig um málið við NRK er eftir því var leitað og kvaðst ætla að lesa dóm Hæstaréttar fyrst.

„Þetta er veikur dómur sem Hæstiréttur fellir,“ segir Siri Martinsen forstjóri Matvælaeftirlitsins við NRK, „rétturinn kýs að setja sjálfan sig skör ofar en Matvælaeftirlitið þegar hann kveður upp úr um hvað teljist óþarfar þjáningar,“ segir Martinsen enn fremur.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert