Julian Assange þarf næði og tíma til að jafna sig eftir meira en fimm ár í háöryggisfangelsi í London.
Þetta sagði Stella eiginkona hans eftir heimkomu Assange til Canberra í Ástralíu í morgun.
„Þið verðið að skilja að hann þarf tíma til að jafna sig,“ sagði tárvot Stella Assange við fréttamenn eftir að hafa endurheimt eiginmann sinn.
Assange kom til Canberra á tíunda tímanum í morgun eftir flug frá Norður-Maríaneyjum en eins og fram hefur komið lýsti Assange sig sekan af ákæru um samsæri sem snýr að birtingu trúnaðargagna og var það liður í sátt sem hann gerði við yfirvöld í Bandaríkjunum til að komast hjá framsali til Bandaríkjanna.
„Ég bið ykkur vinsamlega að gefa okkur fjölskyldunni tíma og næði. Hann er nýkominn til Ástralíu eftir að hafa verið í háöryggisfangelsi í meira en fimm ár og72 tíma flug. Það er ótímabært fyrir hann að tjá sig,“ sagði Stella ennfremur en Julian Assange vildi ekki ræða við fréttamenn eftir komuna til Canberra.