Í dag hófst fimm daga verkfall breskra unglækna sem krefjast 35% launahækkunar. Slétt vika er í að Bretar gangi að kjörborðinu en ástand opinbera heilbrigðiskerfisins þar í landi er eitt af helstu málefnum þingkosninganna.
Opinbera heilbrigðisþjónustan í Bretlandi er enn að fást við fjölda uppsafnaðra mála frá tímum covid-faraldursins en í nýrri könnum kom fram að innan við fjórðungur þjóðarinnar er sátt við heilbrigðiskerfið.
Langir biðlistar eru hjá læknum og tafir á aðgerðum og krabbameinsmeðferðum.
Verkfall unglæknanna er svipað í sniðum og verkföll annarra breskra lækna síðustu 18 mánuði en helsta krafa þeirra er hækkun grunnlauna úr 15 evrum á klukkustund í 20 evrur. Það nemur hækkun úr um 2.200 í 3.000 íslenskar krónur.
Um er að ræða 35% hækkun en unglæknarnir tala um hana sem launaleiðréttingu.
Fram hefur komið í máli læknanna að þeir muni stöðva verkfallsaðgerðir ef forsætisráðherra landsins, Rishi Sunak, kemur að samningaborðinu með trúverðugt loforð um að hækka launin.
Unglæknirinn Shivram Sharma, sem starfar í London, sagði fréttastofu AFP að hann og samstarfsfólk hans væru í verkfalli því þau hafi „staðið í deilum við ríkisstjórnina í 20 mánuði án þess að fá sannfærandi tilboð“.
„Læknar eru þreyttir. Við erum svekkt en þegar allt kemur til alls erum við hrædd [...] við höfum fylgst með gæðum umönnunar í landinu hraka,“ sagði Sharma.
Verkfall læknanna mun vara fram á þriðjudag en þá verða aðeins tveir dagar í þingkosningar í Bretlandi. Gert er ráð fyrir sigri Verkamannaflokksins.
Talsmaður Verkamannaflokksins á sviði heilbrigðismála, Wes Streeting, hefur sagt að ríkisstjórn með flokkinn innanborðs muni ekki fallast á kröfu unglæknanna um 35% hækkun en rými fyrir samtal sé til staðar.
Núverandi ríkisstjórn Rishi Sunaks hefur talað um að kröfur læknanna séu of kostnaðarsamar þar sem opinber fjárútlát séu þegar við þolmörk.