Upprunalega málverkið af Harry Potter selt fyrir milljónir

Vatnslitamálverk af Harry Potter er orðinn verðmætasti seldi gripurinn tengdur sögupersónunni til þessa. Málverkið seldist á um 1,9 milljónir bandaríkjadala, sem jafngildir tæpum 266 milljónum íslenskra króna.

Málverkið, sem er í raun fyrsta myndin af galdrastráknum og samsvarar bókarkápu fyrstu útgáfu fyrstu bókarinnar í seríunni, Harry Potter og viskusteinninn, seldist fyrir meira en þrefalda upphæð ásetts verðs.

Myndin sem skartar upphafi sögu galdrastráksins

Talið var að málverkið myndi seljast á bilinu 55 til 85 þúsund í íslenskum krónum talið, en það tók ekki nema tíu mínútur fyrir verkið að seljast og það langt yfir áætlað verð.

Verkið var fyrst boðið upp árið 2001, áður en bókaserían var fullkláruð, þá á aðeins um 15 þúsund í íslenskum krónum talið.

Listamaðurinn er Bretinn Thomas Taylor, sem var aðeins 23 ára gamall árið 1997 þegar hann málaði myndina sem átti svo eftir að skarta bókarkápu fyrstu bókar í einni vinsælustu bókaseríu heims. 

Kalika Sands sem sá um uppboðið segir verðmuninn á uppboðinu í ár og 2001 sýna hve frægur rithöfundur JK Rowling er og hve vinsælar bækurnar eru enn þann dag í dag, en sú síðasta kom út árið 2007. Í kjölfarið hafa síðan verið framleiddar kvikmyndir og sú fyrsta kom út árið 2001 og sú síðasta tíu árum seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert