Valdheimildir Verðbréfaeftirlitsins skertar

Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. AFP

Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) má ekki lengur þvinga sakborninga til að fara gegnum dómstólameðferð Verðbréfaeftirlitsins. Þess í stað hafa sakborningar rétt á því að mál þeirra séu tekin upp í alríkisdómstól.

Þetta kemur fram í úrskurði Hæstaréttar Bandaríkjanna þar sem sex dómarar kusu með á sama tíma og þrír dómarar kusu gegn.

Hingað til hefur Verðbréfaeftirlitið getað leyst úr tilteknum ágreiningsmálum um fullnustu refsingu með því að þeirra eigin dómstóll úrskurði í málum. 

Það hefur lengi verið markmið íhaldsmanna að takmarka eftirlitsheimildir alríkisstofnana, en forysta þeirra er tilnefnd af forseta Bandaríkjanna. 

Sakborningar eigi rétt á hlutlausum úrskurðaraðila

Með úrskurðinum er Hæstiréttur að staðfesta niðurstöðu áfrýjunardómstóls sem hafði komist að þessari niðurstöðu í máli George Jarkesy, stofnanda fjárfestingarsjóðs, Hann hafði verið sektaður af Verðbréfaeftirlitinu um 300.000 bandaríkjadali fyrir verðbréfasvik og gert að endurgreiða 685.000 dali fyrir „ólöglegan hagnað“.

John Roberts hæstaréttardómari sagði í meirihlutaáliti að það bryti gegn stjórnarskrárbundnum rétti til dómstólameðferðar að þvinga sakborninga til að fara í gegnum dómstóla SEC frekar en alríkisdómstól.

Ákvörðunin gæti mögulega farið fyrir brjóstið á bandarískum stjórnvöldum, þar sem nokkrar aðrar eftirlitsstofnanir nota svipaða dómstóla.

„Ákærði sem á yfir höfði sér fjársvikamál á rétt á að fá að láta reyna á það fyrir kviðdómi jafningja sinna fyrir hlutlausum úrskurðaraðila,“ skrifaði Roberts í meirihlutaálitinu.

Segir ákvörðunina vera valdníðslu

Sex íhaldssamir dómarar í Hæstarétti landsins studdu ákvörðunina, en þrír vinstrisinnaðir dómarar voru á öðru máli.

„Látið ekki blekkjast: Ákvörðunin í dag er valdníðsla,“ skrifaði Sonia Sotomayor hæstaréttardómari í minnihlutaálitinu.

Hún sagði að með þessu fordæmi gætu tugir stofnana verið sviptar valdi sínu til að framfylgja lögum sem Bandaríkjaþing hefur sett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert