10 almennum borgurum sleppt úr haldi

Volodímír Selenskí forseti Úkraínu.
Volodímír Selenskí forseti Úkraínu. AFP/Oscar Del Poze

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, tilkynnti í dag að 10 almennir borgarar, þar á meðal stjórnmálamaður og tveir prestar, sem teknir voru til fanga í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, hefðu verið látnir lausir fyrir tilstilli samkomulags sem Vatíkanið hafði milligöngu um.

Rússar og Úkraínumenn hafa skipst á hundruðum fanga síðan stríð braust út á milli þjóðanna fyrir tveimur árum en það að almennum borgurum sé sleppt úr haldi hefur verið fremur fátítt.

„Okkur tókst að endurheimta tíu til viðbótar úr okkar hópi úr rússnesku haldi,“ sagði Selenskí í færslu á Telegram. 

Sleppt fyrir tilstilli Vatíkansins

Samkvæmt Selenskí hefur sumum þeirra sem látnir voru lausir verið haldið föngnum síðan 2017 þegar þeir voru handteknir á svæðum í austurhluta Úkraínu sem höfðu verið innlimuð af Rússum og voru undir stjórn aðskilnaðarsinna.

Aðrir voru teknir til fanga í Hvíta-Rússlandi þar sem þeim var gert að sök að aðstoða úkraínsk stjórnvöld.

Á lista yfir þá sem frelsaðir voru var stjórnmálamaðurinn Nariman Dzhelal og tveir prestar úr grísk-úkraínsku kaþólsku kirkjunni.

„Þeim hefur öllum verið sleppt og eru komin aftur heim til Úkraínu,“ sagði  Selenskí.

„Ég vil líka benda á þátt Vatíkansins í að koma þessu fólki heim,“ bætti hann við án þess að útskýra frekar hvernig Páfagarður kom að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert