Anna prinsessa útskrifuð af spítala

Anna prinsessa.
Anna prinsessa. AFP

Anna prinsessa hefur snúið heim á ný eftir sjúkrahúsdvöl þar sem hún fékk meðferð við minniháttar höfuðmeiðslum og heilahristing. Hún yfirgaf Southmead spítalann snemma á föstudagsmorgun án þess að til hennar hafi sést.

BBC greinir frá þessu.

Prinsessan, sem er 73 ára gömul, var send á spítala síðastliðinn sunnudag eftir að talið var að hún hafi hlotið áverka af völdum hests á landareign sinni í Gloucester-skíri. Vegna heilahristingsins sem hún hlaut er ekki vitað með vissu hver nákvæm orsök höfuðmeiðslanna er.

Ekki er þó gert ráð fyrir að hún snúi aftur til skyldustarfa sinna þar til læknar segja að það sé öruggt fyrir hana, en óvíst er hvenær það getur orðið.

Eiginmaður hennar, Sir Tim Laurence, undir aðmíráll, þakkaði starfsfólki spítalans fyrir góðmennsku þeirra í stuttri tilkynningu, sem hann sendi eftir heimkomu prinsessunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert