Biden illa fyrirkallaður og Demókratar áhyggjufullir

Donald Trump og Joe Biden tókust á í sjónvarpskappræðum á …
Donald Trump og Joe Biden tókust á í sjónvarpskappræðum á CNN í nótt. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, skutu föstum skotum að hvor öðrum í fyrri sjónvarpskappræðum þeirra á CNN í nótt.

Kappræðurnar stóðu yfir í 90 mínútur og sökuðu þeir hvor annan um að vera versta forseta í sögu Bandaríkjanna. Milljónir manna fylgdust með útsendingunni og það sem kjósendur sáu gæti hafa vakið fleiri spurningar en svör að sögn fréttaskýrenda.

Biden, sem er 82 ára gamall, kom ekki vel fyrirkallaður í kappræðurnar en forsetinn sem hefur verið með kvef var hás og átti á köflum erfitt með að gera sig skiljanlegan. Biden var hikandi og fram kemur í umfjöllun fjölmiðla að margir innan raða Demókrata hafi áhyggjur af stöðu Biden eftir kappræðurnar og sumir kalla eftir því að hann dragi framboð sitt til baka.

Stuðningsmenn Trump voru hins vegar sáttir við sinn mann og töldu hann hafa haft miklu betur gegn sitjandi forseta.

Verðbólgan er að drepa landið okkar

Trump sagði að efnahagsmálin undir stjórn Bidens væru í molum og ekkert hafi gengið hjá honum að ná niður verðbólgu í Bandaríkjunum en Biden svaraði því til að hann hafi tekið við erfiðu búi og það hafi ríkt óstjórn í efnahagsmálum og fleiri málum í valdatíð Trumps.

Trump brást ókvæða við þessum fullyrðingum Bidens og sagðist hann hafa gert Bandaríkin að öflugasta efnahagssvæði heims.

„Biden hefur ekki staðið sig vel. Hann hefur staðið sig mjög illa. Verðbólgan er að drepa landið okkar. Þegar hann tók við var nánast engin verðbólga,“ sagði Trump.

Biden brást við þessu með því að segja að Trump hafi algjörlega eyðilagt bandaríska hagkerfið þegar hann var forseti.

Trump sagði Biden orðinn að Palestínumanni en hann sagði að ef hann fengi að ráða myndi hann heimila Ísraelsmönnum að klára verk sitt gegn Hamas-hryðjuverkasamtökunum. Biden sagðist hins vegar vera fyrsti forsetinn á seinni tímunum sem hafi ekki sent hermenn Bandaríkjanna í stríðsrekstur út í heim.

Forsetaefnin ræddu ýmis mál í kappræðunum eins og um fóstureyðingar, stríð Úkraínumanna og Rússa, stríðið á Gasa og innflytjendamál. Rúmir fimm mánuðir eru í kosningarnar en þær fara fram í byrjun nóvember.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert