Frammistaðan áfall fyrir demókrata

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ.

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmáladeild Háskóla Íslands,segir kappræður Joe Bidens og Donald Trumps í nótt áfall fyrir demókrata. Hún telur mögulegt að skipta út frambjóðanda flokksins en segir það geta reynst flókið.

Í nótt mættust Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og Don­ald Trump, fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, í sjónvarpssal í fyrsta sinn fyrir kosningarnar í nóvember þar sem báðir stefna á vera kjörnir forseti í annað sinn.

Mikið hefur verið rætt um kappræðurnar og þá helst um frammistöðu Bidens en margir vilja meina að hún hafi verið sérlega slæm. Forsetinn var hás og átti á köflum erfitt með að gera sig skiljanlegan. 

Framkoma Trumps þótti yfirvegaðri en oft áður en stuðningsmenn hans voru almennt sáttir með frammistöðuna og töldu hann hafa haft miklu bet­ur gegn sitj­andi for­seta.

Áfall fyrir demókrata

Silja Bára segir kappræðurnar ekki beint hafa komið sér á óvart en að ljóst sé að það hafi verið „áfall fyrir demókrata að sjá Biden virka þetta veikan fyrir á sviði.“

Þá setur Silja spurningamerki við fyrirkomulag kappræðnanna en þær fóru þannig fram að hvor frambjóðandi fékk afmarkaðan tíma til að svara spurningum og á meðan var slökkt á hljóðnema andstæðingsins. 

„Ég held að uppsetningin, þessi hugmynd um að hafa svona stuttan tíma til að svara hverri spurningu bauð í raun og veru upp á mjög lítið samtal milli þeirra svo þetta var dálítið hvor um sig að tala en ekki samtal eða viðbrögð milli þeirra,“ segir Silja og bætir við:

„Mér fannst Biden sérstaklega vera eins og hann hafi verið að leggja rosalega margt á minnið og var upptekin af því. Þannig hann var ekki að hlusta á það sem Trump sagði og brást ekki við honum.“

Spurning hvort áhrifin vari

Spurð hvaða áhrif hún heldur að kappræðurnar hafi á kosningabaráttuna framundan segir Silja: „Ég býst nú við að Trump muni pikka upp einhvern stuðning í kjölfarið af þessu en svo er hinsvegar spurning hvort það vari og hvort fólk muni muna eftir þessu.“

Hún bætir við að enn séu fjórir mánuðir í kosningar og mjög óvenjulegt að formlega barátta milli frambjóðanda hefjist svo snemma en báðir frambjóðendur eiga enn eftir að fá formlegt umboð frá flokkum sínum. 

Alltaf hægt að finna leiðir

Margir Demókratar eru gífurlega vonsviknir með frammistöðu Bidens í kappræðunum og einhverjir hafa viðrað þá skoðun að leita ætti leiða til finna nýjan forsetaframjóðanda flokksins fyrir landsfund í ágúst.

Spurð hvort það sé raunhæft segir Silja: „Það er alltaf hægt að finna einhverjar leiðir, þetta er held ég ekki eitthvað sem er skrifað inn í reglurnar um fundinn. [...] Fyrst og fremst yrði pressan bakvið tjöldin á Biden að draga sig í hlé. Ef einhver myndi skora á hann á fundinum og reyna að fá fram atkvæðagreiðslu yrði það mjög flókið og erfitt að ná því í gegn.“

Margir mótfallnir báðum

Spurð hvort að frammistaða frambjóðendanna í kappræðunum sé líkleg til að hafa meiri áhrif á ákveðna þjóðfélagshópa innan Bandaríkjanna segist Silja ekki halda það en bendir á stór hluti kjósenda vilji hvorugan frambjóðandann sem forseta.

„Það er nú talað um að um 20% kjósenda í Bandaríkjunum vilji hvorugan frambjóðandann þannig það er spurning hvort þetta leiði til þess að fólk snúi bakinu við Biden, muni sleppa að mæta á kjörstað eða snúi sér að Trump,“ segir Silja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert