Sumir demókratar vilja skipta Biden út eftir kappræðurnar

Margir demókratar eru uggandi yfir frammistöðu forsetans í nótt.
Margir demókratar eru uggandi yfir frammistöðu forsetans í nótt. AFP/Andrew Caballerro-Reynolds

„Ég er ekki sú eina sem er miður mín á þessari stundu. Það er mikið af fólki sem horfði á þetta í kvöld og fann skelfilega til með Joe Biden.“

Þetta voru fyrstu viðbrögð Claire McCaskil, fyrrum öldungadeildarþingmanni Demókrata, á MSNBC í kjölfar kappræðna Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem haldnar voru í nótt.

„Ég veit ekki hvort að það sé hægt að gera eitthvað til að laga þetta,“ sagði hún enn fremur um frammistöðu Bidens.

Rangfærslur í svörum Trumps

Frammistaða Bidens þótti ekki öflug í nótt og þá virtist Trump agaðri en venjulega. Þrátt fyrir það þá var Trump á sama tíma með margar rangfærslur og villandi staðhæfingar í svörum sínum, að er kemur fram í frétt NBC News.

Hann gagnrýndi Biden í innflytjenda- og landamæramálum, jafnvel þegar hann var spurður um önnur mál. Og þá reyndi hann að forðast spurningar um það hvort hann myndi samþykkja niðurstöðu kosninganna.

„Hæg byrjun“ að mati varaforsetans

Í frétt Associated Press segir að nú séu Demókratar að velta fyrir sér hvort skaðinn sé varanlegur. Margir kjósendur eru ekki búnir að stilla sig inn í kosningarnar, en rúmlega fjórir mánuðir í að þær verði haldnar.

„Þetta var hæg byrjun. Það er öllum ljóst. Ég ætla ekki að deila um það,“ sagði Kamala Harris varaforseti á CNN eftir kappræðurnar. „Ég er að tala um valið í nóvember. Ég er að tala um eina mikilvægustu kosningar á okkar sameiginlegu lífsleið,“ bætti hún þó við.

Áhyggjur áberandi

Áhyggjur meðal Demókrata voru samt sem áður áberandi þegar Demókratar fóru að hvetja flokkinn opinskátt til að finna annan valkost en Biden.

Sumir talsmenn flokksins bentu á færslu á samfélagsmiðlum frá Ravi Gupta, fyrrum aðstoðarmanni Barack Obama í kosningabaráttum hans.

„Allir demókratar sem ég þekki eru að senda skilaboð um að þetta sé slæmt,“ skrifaði Gupta á X.

„Segðu það bara opinberlega og byrjaðu á því að skapa pláss á landsfundinum fyrir valferli. Ég kýs lík yfir Trump, en þetta er sjálfsmorðsleiðangur.“

Enn tími til að skipta út Biden

Enginn alvarlegur mótframbjóðandi Demókrata hefur tekið upp á því að bjóða sig fram gegn Biden og á þessum tímapunkti í kosningabaráttunni þyrfti Biden að ákveða að víkja til hliðar ef Demókratar eiga að fá að velja annan frambjóðanda.

Ef Biden myndi draga sig í hlé myndi tilnefning Demókrata vera ákveðin á landsfundi í ágúst.

„Það er erfitt að halda því fram að Biden eigi að vera okkar tilnefning,“ sagði starfsmaður sem hefur unnið að kosningabaráttum demókrata á öllum stigum í rúman áratug, í samtali við CNN

Van Jones, demókrati og álitsgjafi á CNN, sagði enn vera tími til að skipta út Biden. 

Hvetur demókrata til að fara ekki á taugum

Talsmenn Bidens komu seint inn í fjölmiðlaherbergið í Atlanta í Georgíu-ríki eftir kappræðurnar. Og þegar þeir komu loks fram forðuðust þeir að mestu leyti spurningar fjölmiðla. Lögðu þeir þó megináherslu á margar lygar Donald Trumps í kappræðunum.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu-ríkis, sem var helsti staðgengill Bidens í fjölmiðlaherberginu í Atlanta, hvatti Demókrata til að fara ekki á taugum.

„Mér finnst það ekki hjálpa og mér finnst það óþarft. Við verðum að fara inn, við verðum að hafa höfuðið hátt,“ sagði Newsom í viðtali á MSNBC.

„Við verðum að styðja við bakið á þessum forseta. Þú snýrð ekki við við hann vegna einnar frammistöðu. Hvernig flokkur gerir það?“

Sökkti kosningabaráttunni 

Chris Wallace, sem stýrði forsetakappræðum á milli Biden og Trump árið 2020, sagði í viðtali við CNN að þetta hafi verið eins og að horfa á bílslys.

„Hann [Biden] sökkti kosningabaráttu sinni,“ sagði Chris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert