Þurfa að viðurkenna tilvistarrétt Ísraels

Stjórnvöld segja að markmið laganna sé að stemma stigu við …
Stjórnvöld segja að markmið laganna sé að stemma stigu við vaxandi gyðingahatri í landinu. AFP/Odd Andersen

Til að erlendir ríkisborgarar geti öðlast ríkisborgararétt í Þýskalandi þurfa þeir nú að viðurkenna tilvistarrétt Ísraels. Er þetta gert til að berjast gegn vaxandi gyðingahatri í landinu.

CNN greinir frá.

Lögin tóku gildi í gær og eru hluti af stærri yfirhalningu á lögum um ríkisborgararétt.

Svar við vaxandi gyðingahatri

Bætt var við spurningum í prófið sem umsækjendur um ríkisborgararétt þurfa að taka til að öðlast þýskan ríkisborgararétt.

„Sem svar við vaxandi gyðingahatri í Þýskalandi hefur verið fjölgað spurningum á prófinu. Nýjum spurningum hefur verið bætt við um málefni sem tengjast gyðingahatri, rétt Ísraels til að fá að vera til og daglegt líf gyðinga í Þýskalandi,“ segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Stytta tímann til að fá ríkisborgararétt

Fleiri breytingar voru gerðar á lögum um ríkisborgararétt og nú geta þeir sem starfa í Þýskalandi og eru taldir hafa aðlagast samfélaginu fengið ríkisborgararétt eftir fimm ára dvöl í landinu.

Það er stytting um þrjú ár, en áður þurfti fólk að hafa dvalið í landinu í að lágmarki átta ár.

Umsækjendur þurfa ekki lengur að afsala sér ríkisborgararétti í fyrra landi, sem áður var skilyrði fyrir fyrstu kynslóð innflytjenda í Þýskalandi.

„Sá sem ekki er sammála okkar gildum fær ekki þýskt vegabréf“

Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, fagnaði breytingunum.

„Þeir sem deila gildum okkar og leggja sig fram geta nú fengið þýskt vegabréf með skjótari hætti og þurfa ekki að afsala sér hluta af sjálfsmynd sinni með fyrra ríkisfangi,“ sagði hún og bætti við:

„Við höfum líka sagt það alveg skýrt. Sá sem ekki er sammála okkar gildum fær ekki þýskt vegabréf. Hér höfum við dregið skýra línu í sandinn og gert lögin mun sterkari en áður. Gyðingahatur, kynþáttafordómar og önnur mannfyrirlitning útiloka ríkisborgararétt. Það er ekkert umburðarlyndi fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert