Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem horfðu á forsetakappræður Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í nótt þótti Trump standa sig betur en Biden.
Þetta kemur fram í könnun sem CNN lét framkvæma fyrir sig meðal kjósenda sem fylgdust með kappræðunum.
Alls sögðu 67% svarenda að Trump hafi staðið sig betur á sama tíma og 33% sögðu Biden hafa staðið sig betur.
81% svarenda sögðu að kappræðurnar hafi ekki haft nein áhrif á val þeirra, 14% til viðbótar sögðu að kappræðurnar hafi haft áhrif á þá en ekki breytt afstöðu þeirra.
Aðeins 5% sögðu að kappræðurnar hafi breytt afstöðu þeirra til þess hvern þeir vildu kjósa.
Spurt var sama úrtakið bæði fyrir og eftir kappræðurnar.
Viðhorf svarenda til Bidens versnaði lítillega í kjölfar kappræðnanna. Tæplega 31% svarenda eru hlynntir honum, samanborið við 37% í könnuninni fyrir kappræðurnar. Aftur á móti eru 43% svarenda hlynntir Trump, en fyrir kappræðurnar var sú tala í 40%.
Úrtakið er þó lítið, 565 manns, og munu fleiri kannanir vafalaust birtast á næstu dögum um frammistöðu frambjóðendanna.