Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kallar nú eftir breiðu lýðræðisbandalagi gegn Þjóðfylkingarflokki Marine Le Pen (RN). Útgönguspár benda til þess að RN hafi unnið fyrri umferð þingkosninganna með yfirburðum.
„Andspænis Þjóðfylkingunni þá er kominn tími á breitt lýðræðislegt bandalag fyrir seinni umferðina,“ sagði Macron í yfirlýsingu.
Hann sagði einnig að mikil kjörsókn í fyrri umferðinni hefði sagt til um „mikilvægi þessarar atkvæðagreiðslu fyrir alla samlanda okkar og vilja til að skýra pólitíska stöðu“.
Kjörsókn var 67,5% og er sú mesta í 40 ár.
Marine Le Pen var sigurreif er hún ávarpaði káta stuðningsmenn sína fyrir skömmu.
„Lýðræðið hefur talað og Frakkar hafa sett RN og bandamenn þeirra í efsta sætið og nánast þurrkað út bandalag Macrons,“ sagði hún.
Hún bætti því við að fólk vilji greinilega snúa við blaðinu eftir skömmustulega stjórn síðustu sjö ár. Bað hún fólk um að kjósa aftur næsta sunnudag í seinni umferð kosninganna.
„Við þurfum hreinan meirihluta til að Jordan Bardella, leiðtogi flokksins, geti verið skipaður forsætisráðherra eftir viku,“ sagði hún.
Kjörstaðir voru að loka og Þjóðfylkingin er með 34% í útgönguspám. Þar á eftir kemur bandalag vinstriflokka undir merkjum Nýju Alþýðufylkingarinnar (NFP) sem eru með 28,1% fylgi.
Miðjubandalag Emannuel Macron Frakklandsforseta er með 20,3%. Þar á eftir koma Repúblikanar með 10,2%.
Næsta sunnudag verður seinni umferð kosninganna.