Sátu á 800 ára gömlum fjársjóði

Svona getur 800 ára gamalt norskt timburhús litið út (viðbyggingin …
Svona getur 800 ára gamalt norskt timburhús litið út (viðbyggingin til vinstri þó ný) eftir andlitslyftingu kunnáttumanna um handverk fornt. Þetta gamla hús í Telemark er nú elsta hótel Noregs. Ljósmynd/Facebook-síða Bolkesjø Gaard

Það er gömul saga og ný er viðhald eldri húsa verður eigendum þeirra myllusteinn um háls með tilheyrandi kostnaði og vinnu. Bolkesjø-fjölskyldan á Notodden í norska fylkinu Telemark sneri hins vegar vörn í sókn á þessum vettvangi þegar fornleifafræðingar kváðu upp þann úrskurð sinn að húskofi á lóð fjölskyldunnar væri 800 ára gamall.

„Þegar okkur var sagt að húsið væri 800 ára gamalt fannst okkur það tilheyra staðnum,“ segir Anne Rokne Bolkesjø, sem hefur orð fyrir fjölskyldunni í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en það var aldursgreining sérfræðinga Vísinda- og tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, sem svipti hulunni af byggingartíma hússins – árið 1220 eða þar um bil.

Eftir að hafa velt því fyrir sér að gefa minjasafni staðarins húsið forna, sem á sínum tíma var byggt sem eldhús og íbúðarhús, komst fjölskyldan að þeirri niðurstöðu að annað væri ótækt en að veita almenningi aðgang að húsinu, einfaldlega með því að leigja það ferða- og öðrum áhugamönnum um hús frá þrettándu öld og dvöl í þeim.

Húsið gamla í sinni upprunalegu mynd.
Húsið gamla í sinni upprunalegu mynd. Ljósmynd/Facebook-síða Bolkesjø Gaard

Hraus hugur við

Í landi formlegheita er sú framkvæmd að gera upp og leigja 800 ára gamla byggingu snúin lögum og reglugerðum um vernd fornminja og umgengni við þær. Húsið á lóð fjölskyldunnar er hvorki meira né minna en elsta varðveitta timburhús sem fundist hefur í Noregi – og timburhús eru ekki fá í Noregi.

Anne Bolkesjø og fjölskylda hennar sáu fyrir sér að gera húsið algjörlega upp og byggja auk þess við það, en hraus hugur við tilhugsuninni um hvernig fylkisstjórn Telemark, sem fer með afgreiðslu slíkra umsókna, tæki í þá hugmynd.

Hér má líkast til eiga eftirminnilega stund í 13. aldar …
Hér má líkast til eiga eftirminnilega stund í 13. aldar anda þótt eðli málsins samkvæmt sé sumt innanstokksmuna nýmóðins. Ljósmynd/Facebook-síða Bolkesjø Gaard

„Við óttuðumst að fá nei þar,“ játar Bolkesjø skiljanlega – sá ótti reyndist þó ástæðulaus, fylkisstjórnin tók þeim hjónum og hugmyndum þeirra með kostum og kynjum. Haustið 2022 veittist þeim svo formlegt leyfi til að hefja framkvæmdir.

Kunnáttumenn bretta upp ermar

„Vernd menningarminja snýst um að verja munina. Notkun minjanna er besta vörnin,“ segir Eystein Andersen, deildarstjóri menningarminjadeildar Telemark-fylkis, við NRK.

Standsetning hátt í þúsund ára gamals húss var auðvitað ekkert áhlaupaverk og hófst með því að húsið var tekið sundur í frumeindir sínar og flutt til Morgedal, einnig í Telemark, þar sem iðnaðarmenn, kunnir fornu skandinavísku handverki, gengu hreint til verks og pússuðu hverja flís upp að hætti þess sem tíðkaðist á 13. öld.

Útsýnin úr viðbyggingunni er ekki með öllu ónýt eins og …
Útsýnin úr viðbyggingunni er ekki með öllu ónýt eins og þessi mynd ber með sér. Ljósmynd/Facebook-síða Bolkesjø Gaard

Að loknu því eljuverki var húsið sett saman á nýjan leik á landareign fjölskyldunnar, viðbyggingu aukið við það og nú er svo komið að gestir og gangandi geta pantað sér gistingu í 800 ára gömlu gistirými og fengið að upplifa andrúmsloft grárrar norskrar forneskju – að svo miklu leyti sem það hefur þolað endurbygginguna.

NRK

NRKII (eitt elsta timburhús Evrópu)

Facebook-síða starfseminnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert