Útgönguspár benda til þess að Þjóðfylkingarflokkur Marine Le Pen beri afgerandi sigur úr býtum í fyrri umferð þingkosninga í Frakklandi.
Kjörstaðir voru að loka og Þjóðfylkingin er með 34% í útgönguspám. Þar á eftir kemur bandalag vinstriflokka undir merkjum Nýju Alþýðufylkingarinnar (NFP) sem eru með 28,1% fylgi.
Miðjubandalag Emannuel Macron Frakklandsforseta er með 20,3%. Þar á eftir koma Repúblikanar með 10,2%.
Þjóðfylkingin hefur aldrei áður unnið fyrstu umferð þingkosninga í Frakklandi og því er um sögulegar tölur að ræða, ef útgönguspár ganga eftir. Ef þessar tölur verða raunin þá er flokkurinn kominn í kjörstöðu fyrir seinni umferð næsta sunnudag.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, boðaði til kosninganna í skyndi eftir að flokkur hans beið afhroð í kosningum til Evrópuþings í byrjun júní.
Þingkosningarnar í Frakklandi fara fram með sérstöku sniði. Ef enginn einn frambjóðandi fær meirihluta í sínu kjördæmi fara þeir frambjóðendur sem hljóta nægt fylgi áfram í næstu lotu þar sem kosið er á nýjan leik.