Forseti njóti friðhelgi að hluta

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nú komist að niðurstöðu.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nú komist að niðurstöðu. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að niðurstöðu er varðar friðhelgi Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna vegna háttsemi í kringum forsetakosningarnar 2020. Hann er sagður hafa grafið undan kosninganiðurstöðum. 

Niðurstaða hæstaréttar var sú að fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna ættu rétt á friðhelgi að hluta til, það er að segja, gagnvart því sem þeir gera í starfi en ekki sem almennir borgarar. 

Dómararnir skiptust í 6 gegn 3. Dómsforsetinn John Roberts las upp meirihlutaákvörðun dómsins. Haft er eftir Roberts þar sem hann segir það sem forseti geri í embætti njóta friðhelgi, að minnsta kosti þegar komi að stjórnarskrárvörðu valdi hans. Þá tók hann fram að forseti njóti ekki friðhelgi í einu og öllu, meðal annars ekki því sem flokkist ekki sem opinberar gjörðir eða skyldur.

CNN greinir frá

Hæstiréttur biður nú lægri dómsstig um að skera úr um hvort að umræddar gjörðir Trump flokkist sem skyldur forseta og þá opinberar, eður ei. 

Forsetinn nú konungur, hafinn yfir lög

Sonia Sotomayor, einn dómari hæstaréttar sem kaus gegn meirihlutaákvörðuninni, var ómyrk í máli þegar hún greindi frá andmælum sínum. 

Haft er eftir Sotomayor þar sem hún segist óttast um lýðræði Bandaríkjanna. 

„Leyfið forsetanum að brjóta lög, leyfið honum að misnota umgjörð embættisins til eigin hagsmuna, leyfið honum að nota opinbert vald til illra gjörð. Af því að ef hann vissi að hann gæti einn daginn þurft að horfast í augu við ábyrgð fyrir það að brjóta lögin, þá væri hann kannski ekki jafn djarfur og óttalaus og við viljum að hann sé. Það eru skilaboð meirihlutans í dag.

Jafnvel þó að þessar martraðir verði aldrei að veruleika, og ég bið fyrir því að þær verði það aldrei, eru skemmdirnar nú óafturkræfar. Sambandið á milli forsetans og fólksins sem hann þjónar hefur breyst og það verður ekki afturkallað. Í öllum tilfellum þegar forsetinn notar opinbert vald er hann nú konungur yfir lög hafinn.“ 

Trump hefur haldið því fram að hann hann njóti friðhelgi vegna stöðu sinnar sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Önnur dómstig hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann njóti ekki friðhelgi, enda orðinn almennur ríkisborgari þegar brotin, einna helst innrásin í þinghúsið þann 6. janúar 2021, hafi átt sér stað. 

Í dag er seinasti starfsdagur hæstaréttar fyrir sumarfrí en vanalega starfar dómstóllinn aðeins út júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert