Hver verður fyrir valinu hjá Trump?

Líklegt er að einn af þessum mönnum í neðri línu …
Líklegt er að einn af þessum mönnum í neðri línu verði varaforsetaefni Trumps. Frá vinstri: Doug Burgum, J.D. Vance, Marco Rubio. Samsett mynd/AFP

Búist er við því að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tilkynni um varaforsetaefni sitt á næstu dögum eða vikum. Þrjú nöfn hafa helst borið á góma í umræðu um varaforsetaefni hans, en hvaða menn eru það?

Landsfundur Repúblikana hefst 15. júlí og hefur Trump gefið það út að hann muni líklegast tilkynna um varaforsetaefni sitt í aðdraganda fundarins eða á fundinum.

Valið er af mörgum talið standa á milli Doug Burgum, J.D. Vance og Marco Rubio.

Fyrir þessa menn þá er mikið í húfi, hljóti Trump kjör, þar sem Trump getur aðeins gegnt embætti forseta í eitt kjörtímabil í viðbót.

Varaforseti hans myndi því vera í nokkuð sterkri stöðu í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2028, hefði hann áhuga á því.

Burgum nokkuð óumdeildur ríkisstjóri

Doug Burgum er ríkisstjóri Norður-Dakóta og er að sinna öðru kjörtímabili í embætti. Hann átti stóran hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Great Plains Software sem var svo selt til Microsoft árið 2001 fyrir 1,1 milljarð dollara.

Burgum bauð sig fram í forvali Repúblikana á síðasta ári en dró framboð sitt til baka í desember og lýsti yfir stuðningi við Trump.

Í frétt AP segir að Burgum sé staðfastur og nokkuð óumdeildur ríkisstjóri. Þar sem hann er nokkuð óþekktur er ólíklegt að hann keppi um sviðsljósið eða skyggi á Trump.

Kvikmynd á Netflix byggð á bók eftir J.D. Vance

J.D. Vance er öldungadeildarþingmaður frá Ohio-ríki en hann var kjörinn árið 2022. Hann varð hins vegar frægur árið 2016 fyrir ævisögu sína, Hillbilly Elegy.

Seinna meir var kvikmynd gerð byggð á bókinni og geta Íslendingar með Netflix horft á hana.

J.D. Vance hefur verið mikill stuðningsmaður Trumps síðan hann bauð sig fram og hefur Trump stutt hann. Málflutningur Vance er mjög í takt við málflutning Trumps.

Mætti Trump í forvali flokksins árið 2016

Marco Rubio er öldungadeildarþingmaður frá Flórída-ríki. Rubio mætti Donald Trump í forvali Repúblikana árið 2016 en endaði í 3. sæti.

CNN greinir frá því að í samtölum við þingmenn, aðstoðarmenn og ráðgjafa Repúblikana líta margir á Rubio sem skýran leiðtoga sem gæti verið áreiðanlegur varaforseti.

Foreldrar hans eru innflytjendur frá Kúbu og gæti hann styrkt stöðu Trumps enn frekar meðal kjósenda af rómönskum uppruna.

Óljóst hver verður fyrir valinu

Fleiri hafa þó verið nefndir sem mögulegt varaforsetaefni Trumps. Þar má nefna þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings eins og Byron Donalds og Elise Stefanik.

Aðrir sem nefndir hafa verið eru til dæmis Tim Scott öldungadeildarþingmaður, Ben Carson, ráðherra hús­næðis- og þétt­býl­isþró­un­ar­mála í ríkisstjórn Trumps, og Vivek Ramaswamy.

Trump er þó þekktur fyrir að geta verið ófyrirsjánlegur og því er alls ekki ljóst hver verður fyrir valinu.

ABC News

ABC News

AP

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert