Parísarbúar græða ekki á tá og fingri

Margir Parísarbúar töldu sig hafa séð sér leik á borði …
Margir Parísarbúar töldu sig hafa séð sér leik á borði er þeir auglýstu íbúðir sínar til leigu yfir Ólympíuleikana. AFP/Miguel Medina

Parísarbúar sem sáu fyrir sér að græða vel á því að leigja út eignir sínar á meðan Ólympíuleikarnir yrðu haldnir í borginni sitja nú margir hverjir eftir með sárt ennið. Spenntu margir bogann of hátt í verðlagningu í upphafi árs sem olli því að enginn vildi leigja eignir þeirra.

Verð á gistingu í París í júlí og fram í ágúst hefur lækkað mikið, ekki síst á leigumiðluninni Airbnb. Ólympíuleikarnir hefjast 26. júlí og standa fram í ágúst. Hafa leigusalar á Airbnb þurft að lækka verðið á eignum sínum mikið til þess að geta yfir höfuð leigt þær út þennan tíma. AFP-fréttastofan ræddi við Giuliu, fasteignasala sem býr í París og leigir út eign sína.

Hún hafði séð fyrir sér að geta grætt vel á útleigu á íbúð sinni yfir Ólympíuleikana og á sama tíma færi hún í gott frí til útlanda á meðan.

„Við vorum þegar farin að sjá fyrir okkur alla seðlana sem við gætum farið með í frí,“ segir Giulia við AFP.

Draumurinn varð ekki að veruleika

En sá draumur varð ekki að veruleika. Í janúar ákvað hún að leigja út íbúð sína í 18. hverfi borgarinnar á 550 evrur fyrir nóttina, sem er um 81 þúsund krónur.

„Eftir það lækkuðum við niður í 539 og síðan 250, og samt vildi enginn leigja hana,“ segir hún. Það var ekki fyrr en hún lækkaði verðið niður í 160 evrur fyrir hverja nótt að íbúðin var bókuð. Er það aðeins um 30 evrum hærra en hún rukkar vanalega fyrir hverja nótt í júlí og ágúst.

En 160 evrur eru um 23 þúsund krónur. Það var ekki jafn mikið og hún vonaðist til að fá en gerir þó fjölskyldunni kleift að fara í gott frí. Annar Parísarbúi, Adrien Coucaud, var ekki svo heppinn. Hann ákvað að reyna að leigja íbúðina sína út í gegnum bókunarvef á netinu á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir. Hann segir þá tilraun hafa misheppnast hrapalega og viðurkennir að hafa verið drifinn áfram af græðgi þegar hann reyndi að leigja hana út.

Bókunarvefurinn verðlagði íbúð hans allt of hátt, svo hátt að enginn hafði áhuga á að bóka gistingu í íbúðinni. Eftir að hafa reynt að ná í bókunarvefinn og fengið engin svör ákvað hann hætta að nota þjónustu bókunarvefsins. Hann lækkaði verðið niður í 166 evrur fyrir nóttina, en samt var engin eftirspurn.

„Á þeim tímapunkti ákvað ég að hætta við þetta ævintýri,“ segir Coucaud. Ástæða þess að enginn hafi viljað taka á leigu rándýrar íbúðir í París á meðan Ólympíuleikunum stendur er rakin til þess að of margir hafi fengið sömu hugmyndina á sama tíma. Að verð á gistingu hafi lækkað mikið nú í aðdraganda keppninnar kemur borgaryfirvöldum ekki á óvart.

Sáu þróunina eiginlega fyrir

„Við sáum þetta eiginlega fyrir,“ segir Barbara Gomes en hún sér um að fylgjast með ferðamannagistingu í höfuðborginni frönsku.

„Það var mikil verðbólga fyrst, og marga íbúa dreymdi um að geta leigt út eignir sínar fyrir himinháar fjárhæðir á meðan Ólympíuleikarnir fóru fram,“ segir Gomes og segir að síðan hafi verðið lækkað.

Sú lækkun hafi komið í kjölfar þess að fjöldi eigna voru skráðar til útleigu. Airbnb hefur fylgst vel með markaðnum í París fyrir sumarið og segir fyrirtækið í svari fyrirspurnar AFP að viðburðurinn verði sá stærsti í sögu Airbnb. „Verð á gistingu fyrstu nætur Ólympíuleikanna seldust á fimmfalt hærra verði en á sama tíma í júlí í fyrra,“ segir enn fremur í svari Airbnb.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert