Fresta dómsuppkvaðningu í máli Trumps

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP/Michael Nagle

Búið er að fresta dómsuppkvaðningu í máli Donald Trumps í Manhattan í New York þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa falsað viðskipta­skjöl­ tengdum greiðslum til klám­mynda­leik­kon­unn­ar Stormy Daniels.

Dómarinn í málinu tilkynnti þetta fyrir skömmu.

„Málinu er frestað til 18. september 2024, klukkan 10, til að hægt sé að kveða upp dóm, ef slíkt verður enn nauðsynlegt,“ sagði Juan Merchan dómari.

Forseti njóti friðhelgi að hluta

Dómsuppkvaðningin átti upphaflega að vera 11. júlí en vegna úrskurðar Hæstaréttar Bandaríkjanna í gær verður dómarinn að gefa sér meiri tíma til að skilja hvernig sá úrskurður hefur áhrif á mál Trumps.

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær að forseti Bandaríkjanna eigi rétt á friðhelgi gagnvart því sem hann gerir í embætti sínu sem forseti en ekki sem almennur borgari.

Þessi niðurstaða varð til þess að réttarhöldum yfir Trump vegna meints samsæris í kringum forsetakosningar árið 2020 var frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert