Hver tæki við af Biden?

Joe Biden þótti standa sig illa í kappræðum í síðustu …
Joe Biden þótti standa sig illa í kappræðum í síðustu viku. AFP

Að svo stöddu er talið ósennilegt að Joe Biden Bandaríkjaforseti dragi framboð sitt til baka en þrýstingur á hann um að hætta er að byggjast upp. En hver myndi þá verða forsetaefni Demókrata?

Lloyd Doggett, þingmaður Demó­krata í full­trúa­deild­inni, varð í dag fyrsti þingmaður flokks­ins til þess að kalla eft­ir því op­in­ber­lega að Biden mynda draga fram­boð sitt til baka.

Annar þingmaður Demókrata sagði undir nafnleynd við CNN að það væri stór og vaxandi hópur þingmanna flokksins sem hefðu verulegar áhyggjur af framboði forsetans.

Kamala Harris líklegust

Ef Biden myndi ákveða að hætta þá er augljósasti arftaki hans Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna.

Vandamál hennar felast þó í því að hún er samkvæmt mörgum mælingum óvinsælli en Joe Biden, sem er sjálfur ekki að skora hátt í viðhorfsmælingum. Samkvæmt FiveThirtyEight þá eru færri en 40% Bandaríkjamanna sáttir við hennar störf.

Þó kom út skoðanakönnun sem CNN birti í dag þar sem Harris mælist með meira fylgi en Biden gegn Trump. Myndi hún fá 45% atkvæða á sama tíma og Biden myndi fá 43%. Trump sigrar þau bæði, en hann myndi fá 47% á móti Harris og 49% á móti Biden.

Kamala Harris er augljós valkostur ef Biden dregur framboð sitt …
Kamala Harris er augljós valkostur ef Biden dregur framboð sitt til baka. AFP/Greg Nash

Ríkisstjóri Kaliforníu vinsæll innanflokks

En það er engin regla sem segir að varaforsetaefnið þurfi að taka við forsetaframbjóðandanum, dragi Biden framboð sitt til baka.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, er geysivinsæll innan Demókrataflokksins og hefur hann oft verið nefndur sem mögulegur arftaki Bidens. Newsom hefur þá ekki beint verið að leyna eigin metnaði til þess að fara í forsetaframboð einn daginn.

Á undanförnum mánuðum hefur hann aukið ferðalög sín til útlanda, vakið athygli á störfum sínum og hefur látið fjárfesta milljónum dollara í pólitíska aðgerðanefnd (e. Political action committee).

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu. Í könnun CNN kemur fram að …
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu. Í könnun CNN kemur fram að hann myndi tapa á móti Trump með sex prósentustigum. AFP

Ríkisstjórar sveifluríkja oft nefndir

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, er annar mögulegur frambjóðandi Demókrata. Hún er ekki alveg jafn þekkt og Newsom og Harris á landsvísu en hún er ríkisstjóri í einu mikilvægasta ríkinu í forsetakosningunum.

Michigan er svo­kallað sveiflu­ríki, eða ríki þar sem úr­slit kosn­ing­anna gætu farið á ann­an hvorn veg.

Ríkisstjóri Michigan, Gretchen Whitmer. Hún myndi tapa með fimm prósentustigum …
Ríkisstjóri Michigan, Gretchen Whitmer. Hún myndi tapa með fimm prósentustigum gegn Trump samkvæmt könnun CNN. AFP/Jim Watson

Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu, er nafn sem skýtur upp kollinum reglulega í umræðum um það hver geti tekið við af Biden.

Hann leiðir stærsta sveifluríkið í komandi kosningum og eins og staðan er núna þá er Biden að tapa í Pennsylvaníu samkvæmt könnunum.

Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu.
Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu. AFP/Getty Images/Anna Moneymaker

Fyrrum forsetafrú nefnd

Aðrir sem hafa verið nefndir eru JB Pritzker, ríkisstjóri Illinois, Wes Moore, ríkisstjóri Maryland og Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, en möguleikar þeirra virðast í besta falli takmarkaðir.

Öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar og Pete Buttigieg samgönguráðherra hafa þá einnig verið nefnd.

Svo má ekki gleyma Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, sem oft er nefnd. Flestir telja hana þó engan áhuga hafa á forsetaframboði.

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert