Mætir í sitt fyrsta viðtal eftir kappræðurnar

Biden hefur ekki átt sjö dagana sæla.
Biden hefur ekki átt sjö dagana sæla. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun á föstudaginn mæta í sitt fyrsta sjónvarpsviðtal síðan forsetakappræðurnar fóru fram í síðustu viku.

ABC News munu sjónvarpa viðtalinu sem George Stephanopoulos, þáttstjórnandi Good Morning America, mun taka. Brot úr viðtalinu verða birt á föstudag og laugardag en viðtalið í heild sinni verður birt á sunnudaginn.

Biden þótti standa sig afar illa í kappræðum á móti Donald Trump í síðustu viku. Í kappræðunum var forsetinn hás, átti á köflum erfitt með að gera sig skiljanlegan og gleymdi því hvað hann ætlaði að segja á einum tímapunkti.

Biden þurfi ekki að taka vitsmunapróf

Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Karine Jean-Pierre, sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að engin ástæða væri fyrir forsetann að taka vitsmunapróf (e. Cognitive test) eins og sumir hafa skorað á hann að taka.

Fréttastofa AFP greinir frá því að Biden hefur ekki haldið langan blaðamannafund síðan í janúar 2022 og að hann dvelji nær allar helgar á heimili sínu í Delaware, án þess að vera með nokkra dagskrá.

George Stephanopoulos, þáttstjórnandi Good Morning America, mun stýra viðtalinu.
George Stephanopoulos, þáttstjórnandi Good Morning America, mun stýra viðtalinu. AFP/Getty Images/Roy Rochlin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert