Orban á leið til Úkraínu

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP/Alex Halada

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, kemur í dag í óvænta heimsókn til Kænugarðs í Úkraínu.

Orban hefur ekki heimsótt Úkraínu frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022, en hann hefur verið sá leiðtogi innan ríkja Evrópusambandsins sem hefur mest gagnrýnt fjárstuðning Evrópusambandsins við Úkraínumenn í stríðinu gegn Rússum. Hann til að mynda hindraði tímabundið 50 milljarða evra hjálparpakka til Úkraínu í margar vikur í vor.

Hitti Pútín í október

Orban, sem er leiðtogi þjóðernissinna og hefur verið við völd í Ungverjalandi frá árinu 2010, hefur einnig gagnrýnt stefnu Evrópusambandsins um að hefja formlegar aðildarviðræður við Úkraínumenn. Hann sat þó hjá í atkvæðagreiðslu í stað þess að beita neitunarvaldi.

Orban hefur verið sakaður um að halda uppi góðum samskiptum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Hann hitti Pútín á leiðtogafundi í Peking í október á síðasta ári og varð þar með fyrsti leiðtogi ríkja innan Evrópusambandsins til að gera það síðan stríðið hófst.

Mikilvægasta umræðuefnið er möguleikinn á að skapa frið,“ segir Bertalan Havasi, fjölmiðlafulltrúi Orbans, við ungversku fréttastofuna MTI. Hann bætti því við að Orban og Volodimír Selenski, forseti Úkraínu, muni ræða tvíhliða samskipti ríkjanna. Andað hefur köldu á milli þeirra frá því stríðið braust út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert