Aðskildir tvíburar kynntust óvænt á TikTok

Tvíburasysturnar Elene og Anna uppgötvuðu hvor aðra á samfélagsmiðlinum TikTok.
Tvíburasysturnar Elene og Anna uppgötvuðu hvor aðra á samfélagsmiðlinum TikTok. AFP

Eineggja tvíburasystur, sem aðskildar höfðu verið við fæðingu, uppgötvuðu hvor aðra í gegnum TikTok. Reyndust þær vera meðal tugþúsunda georgískra barna sem höfðu verið seld ólöglega til ættleiðingar. 

Elene Deisadze var sautján ára þegar hún rakst á prófíl stelpu að nafni Anna Panchulidze á samfélagsmiðlinum TikTok. Vakti það athygli hennar hve ótrúlega líkar þær voru en stúlkurnar vinguðust og komust snemma að því að þær væru báðar ættleiddar.

Ákváðu þær þá að taka erfðapróf sem leiddi í ljós að þær voru eineggja tvíburar.

Fundu fyrir sérstakri tengingu

„Við vinguðumst án þess að gruna að við gætum verið systur, en við fundum báðar fyrir sérstakri tengingu á milli okkar,“ segir Deisadze í samtali við AFP-fréttastofuna.

Georgískur blaðamaður að nafni Tamuna Museridze kom því í kring að stelpurnar tækju erfðaprófið. Museridze rekur facebookhóp sem er ætlað að sameina foreldra og börn sem seld voru ólöglega til ættleiðingar.

Georgíska blaðakonan Tamuna Museridze, átti stóran þátt í að afhjúpa …
Georgíska blaðakonan Tamuna Museridze, átti stóran þátt í að afhjúpa hneykslið. AFP

Afhjúpaði hneykslið óvart

Museridze stofnaði hópinn árið 2021 í tilraun til að finna eigin fjölskyldu eftir að hafa uppgötvað að hún hefði sjálf verið ættleidd. Facebookhópurinn fékk þó fljótt annan tilgang þegar í ljós kom að ótrúlegur fjöldi georgískra barna hefði verið aðskilinn frá foreldrum sínum og seldur ólöglega til ættleiðingar.

„Mæðrum var sagt að börnin þeirra hefðu dáið skömmu eftir fæðingu og verið grafin í kirkjugarði spítalans,“ er haft eftir Museridze.

Hún útskýrir að um lygi hefði verið að ræða og að börnin hefðu verið numin á brott og seld til nýrra foreldra, sem gerðu sér fæstir grein fyrir að ættleiðing þessara barna væri ólögleg.

„Sumt fólk tók þó meðvitaða ákvörðum um að fara fram hjá lögum og kaupa barn,“ bætir Museridze við og nefnir að fólk sem hyggist ættleiða barn þurfi stundum að bíða í allt að áratug.

Grunaði aldrei að ættleiðingin væri ólögleg

Fósturforeldrar Elene Deisadze ákváðu að ættleiða barn þegar þau komust að því að þau gætu ekki eignast barn upp á eigin spýtur.

„En að ættleiða hjá munaðarleysingjahæli virtist nánast ómögulegt vegna ótrúlega langra biðlista,“ segir fósturmóðir Deisadze, Lia Korkotadze.

Hún segist því hafa gripið tækifærið þegar kunningi hennar benti henni á að hálfs árs gamalt barn væri laust til ættleiðingar á nálægum spítala gegn gjaldi. Að hennar sögn grunaði hana ekki á neinum tímapunkti að ættleiðingin væri ólögleg.

Tvíburarnir eru meðal tugþúsunda georgískra barna sem voru aðskilin frá …
Tvíburarnir eru meðal tugþúsunda georgískra barna sem voru aðskilin frá foreldrum sínum á ólöglegan hátt. AFP

Að minnsta kosti 120.000 börnum stolið

Museridze segist hafa fært sönnur á að í það minnsta 120.000 börnum hafi verið stolið frá foreldrum sínum á árabilinu 1950 til 2006. Þau hafi þá verið seld fyrir himinháar upphæðir til nýrra foreldra í Georgíu og öðrum löndum.

Meira en 800 fjölskyldur hafa verið sameinaðar í gegnum facebookhóp Museridze. Þar á meðal eru aðrar tvíburasystur, þær Anna Sartania og Tako Khvitia.

Stjórnvöld í Georgíu hafa gert margar tilraunir til að rannsaka þessi mál er varða ólöglega ættleiðingu. Nokkur fjöldi fólks hefur verið handtekinn í tengslum við starfsemi af þessu tagi síðastliðin tuttugu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert