Fellur þyngsti dómur Noregs á morgun?

Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna …
Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna í mars. Aðalmeðferð máls hans lauk í maí eftir tveggja mánaða málflutning. Saksóknari krefst sögulegrar refsingar miðað við norska dómaframkvæmd. AFP/Lise Åserud

Dómurinn sem kveðinn verður upp yfir Pride-skotmanninum Zaniar Matapour í Héraðsdómi Óslóar síðdegis á morgun, fimmtudag, gæti komist á spjöld sögunnar sem þyngsta fangelsisrefsing í sögu Noregs.

Eins og mbl.is fjallaði um í maí krefst Aud Kinsarvik Gravås héraðssaksóknari 30 ára fangelsis fyrir atlögu hins norsk-íranska Matapours á Pride-hátíðinni í Ósló 25. júní 2022 en aðalmeðferð málsins, eins af umfangsmeiri sakamálum í sögu Noregs, stóð í tvo mánuði.

Matapour hóf skothríð með hálfsjálfvirkri Luger-skammbyssu og tæmdi átta skota hylki hennar áður en hann mundaði MP40-hríðskotabyssu og hleypti af henni uns vopnið stóð á sér og stukku vegfarendur þá á árásarmanninn og yfirbuguðu hann. Báðar byssurnar eru þýskar að gerð og voru þekkt vopn í höndum nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

Yrði í fyrsta skipti

Verj­andi Mata­pours, John Christian Eld­en, hélt því fram við aðalmeðferðina að árás hans hefði ekki beinst gegn sam­kyn­hneigðum og því síður hafi þar verið um hryðju­verk að ræða. Þetta féllst ákæru­valdið eng­an veg­inn á enda hleypti Mata­pour fyrsta skot­inu af svo að segja þegar Pri­de-hátíðin stóð sem hæst.

„Það yrði þá í fyrsta skipti sem nokkur hlyti svo þunga fangelsisrefsingu í Noregi,“ segir Rune Bård Hansen við norska ríkisútvarpið NRK, dómari við Lögmannsrétt Agder, einn hinna sex norsku áfrýjunardómstóla á millidómstigi sambærilegu við Landsrétt á Íslandi.

Almennt er 21 árs fangelsi þyngsta fangelsisrefsing sem hægt er að dæma í Noregi í einu lagi en norsk lög fjalla þó einnig um úrræði sem kallast for­var­ing og hættu­leg­ustu af­brota­menn lands­ins hafa verið dæmd­ir eft­ir, svo sem And­ers Behring Brei­vik.

Hryðjuverkaákvæði í nýjum hegningarlögum

Í framkvæmd má þar með halda brotamanni bak við lás og slá ævilangt en slíkt verður ekki dæmt í einu lagi, oftast hlýt­ur sakamaður þá tíu eða tutt­ugu ára dóm með ákveðinni lág­marks­refs­ingu og svo má framlengja refsinguna meti geðfróðir menn brotamann óhæfan til lausagöngu.

Árið 2015 tóku ný hegningarlög gildi í Noregi og tekur eitt ákvæði þeirra sérstaklega á hryðjuverkum, sem saksóknari telur hafið yfir allan vafa að árás Matapours hafi verið. Mælir ákvæðið fyrir um allt að 30 ára fangelsi þegar um stórfellt hryðjuverk telst að ræða.

Dómur héraðsdóms á morgun stendur og fellur með því hvort Matapour hafi gert sér ljóst hvað hann hafi verið að gera á verknaðarstundu og verið í slíku ástandi andlega að unnt sé að refsa honum fyrir ódæðið.

Auðveldlega fyrir Hæstarétt

Hefur dómkvadda geðlækna greint á um hvort ákærði hafi verið sakhæfur þegar hann framdi ódæðið en Elden verjandi krefst sýknu og vistunar árásarmannsins á viðeigandi stofnun á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið í ástandi til að skilja afleiðingar gjörða sinna að kvöldi 25. júní 2022.

Hansen vill ekki tjá sig efnislega um málið en telur það auðveldlega geta endað í dómsal Hæstaréttar. „Þetta er grafalvarlegt, en maður á líka auðvelt með að gera sér mun alvarlegri hryðjuverkaárásir í hugarlund sem hafa mun meiri afleiðingar hvað fjölda látinna varðar,“ segir lögmannsréttardómarinn.

Nefnir hann mál Breiviks sem dæmi og telur einsýnt að hefði ákvæðið frá 2015 verið í lögum er hann var dæmdur hefði niðurstaðan án nokkurs vafa orðið 30 ára dómur.

NRK

Nettavisen

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert