Dómurinn sem kveðinn verður upp yfir Pride-skotmanninum Zaniar Matapour í Héraðsdómi Óslóar síðdegis á morgun, fimmtudag, gæti komist á spjöld sögunnar sem þyngsta fangelsisrefsing í sögu Noregs.
Eins og mbl.is fjallaði um í maí krefst Aud Kinsarvik Gravås héraðssaksóknari 30 ára fangelsis fyrir atlögu hins norsk-íranska Matapours á Pride-hátíðinni í Ósló 25. júní 2022 en aðalmeðferð málsins, eins af umfangsmeiri sakamálum í sögu Noregs, stóð í tvo mánuði.
Matapour hóf skothríð með hálfsjálfvirkri Luger-skammbyssu og tæmdi átta skota hylki hennar áður en hann mundaði MP40-hríðskotabyssu og hleypti af henni uns vopnið stóð á sér og stukku vegfarendur þá á árásarmanninn og yfirbuguðu hann. Báðar byssurnar eru þýskar að gerð og voru þekkt vopn í höndum nasista í síðari heimsstyrjöldinni.
Verjandi Matapours, John Christian Elden, hélt því fram við aðalmeðferðina að árás hans hefði ekki beinst gegn samkynhneigðum og því síður hafi þar verið um hryðjuverk að ræða. Þetta féllst ákæruvaldið engan veginn á enda hleypti Matapour fyrsta skotinu af svo að segja þegar Pride-hátíðin stóð sem hæst.
„Það yrði þá í fyrsta skipti sem nokkur hlyti svo þunga fangelsisrefsingu í Noregi,“ segir Rune Bård Hansen við norska ríkisútvarpið NRK, dómari við Lögmannsrétt Agder, einn hinna sex norsku áfrýjunardómstóla á millidómstigi sambærilegu við Landsrétt á Íslandi.
Almennt er 21 árs fangelsi þyngsta fangelsisrefsing sem hægt er að dæma í Noregi í einu lagi en norsk lög fjalla þó einnig um úrræði sem kallast forvaring og hættulegustu afbrotamenn landsins hafa verið dæmdir eftir, svo sem Anders Behring Breivik.
Í framkvæmd má þar með halda brotamanni bak við lás og slá ævilangt en slíkt verður ekki dæmt í einu lagi, oftast hlýtur sakamaður þá tíu eða tuttugu ára dóm með ákveðinni lágmarksrefsingu og svo má framlengja refsinguna meti geðfróðir menn brotamann óhæfan til lausagöngu.
Árið 2015 tóku ný hegningarlög gildi í Noregi og tekur eitt ákvæði þeirra sérstaklega á hryðjuverkum, sem saksóknari telur hafið yfir allan vafa að árás Matapours hafi verið. Mælir ákvæðið fyrir um allt að 30 ára fangelsi þegar um stórfellt hryðjuverk telst að ræða.
Dómur héraðsdóms á morgun stendur og fellur með því hvort Matapour hafi gert sér ljóst hvað hann hafi verið að gera á verknaðarstundu og verið í slíku ástandi andlega að unnt sé að refsa honum fyrir ódæðið.
Hefur dómkvadda geðlækna greint á um hvort ákærði hafi verið sakhæfur þegar hann framdi ódæðið en Elden verjandi krefst sýknu og vistunar árásarmannsins á viðeigandi stofnun á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið í ástandi til að skilja afleiðingar gjörða sinna að kvöldi 25. júní 2022.
Hansen vill ekki tjá sig efnislega um málið en telur það auðveldlega geta endað í dómsal Hæstaréttar. „Þetta er grafalvarlegt, en maður á líka auðvelt með að gera sér mun alvarlegri hryðjuverkaárásir í hugarlund sem hafa mun meiri afleiðingar hvað fjölda látinna varðar,“ segir lögmannsréttardómarinn.
Nefnir hann mál Breiviks sem dæmi og telur einsýnt að hefði ákvæðið frá 2015 verið í lögum er hann var dæmdur hefði niðurstaðan án nokkurs vafa orðið 30 ára dómur.