Pólskur maður hefur verið ákærður fyrir ofbeldi gegn Mette Frederiksen, forsætisráðherra Jafnaðarmannaflokksins. Atvikið átti sér stað á Kultorvet í Kaupmannahöfn þ. 7. júní s.l.
Verjandi mannsins, Henrik Karl Nielsen, upplýsti fréttamiðilinn Ritzau um þetta. DR greinir frá.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Kaupmannahafnar 6. og 7. ágúst.
Maðurinn, sem er 39 ára, situr nú í gæsluvarðhaldi og er ákærður fyrir að hafa slegið forsætisráðherrann í hægri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún féll við.
Ákæran snýst um brot á 119. grein danskra hegningarlaga sem fjallar um árásir á opinberan starfsmann í embætti.
Forsætisráðuneytið hefur áður greint frá því að Mette Frederiksen hafi fengið smávægilegan hálshnykk eftir höggið og að hún hafi verið flutt á Rigshospitalet til skoðunar.
Komið hefur fram að hinn 39 ára gamli maður muni ekki nákvæmlega eftir atvikinu þar sem hann var mjög ölvaður.
Maðurinn neitar sök.