Maður ákærður fyrir ofbeldi gegn forsætisráðherra Danmerkur

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld í miðborg Kaupmannahafnar þ. …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld í miðborg Kaupmannahafnar þ. 7. júní s.l. AFP

Pólskur maður hefur verið ákærður fyrir ofbeldi gegn Mette Frederiksen, forsætisráðherra Jafnaðarmannaflokksins. Atvikið átti sér stað á Kultorvet í Kaupmannahöfn þ. 7. júní s.l.

Verjandi mannsins, Henrik Karl Nielsen, upplýsti fréttamiðilinn Ritzau um þetta. DR greinir frá.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Kaupmannahafnar 6. og 7. ágúst.

Maðurinn, sem er 39 ára, situr nú í gæsluvarðhaldi og er ákærður fyrir að hafa slegið forsætisráðherrann í hægri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún féll við.

Ákæran snýst um brot á 119. grein danskra hegningarlaga sem fjallar um árásir á opinberan starfsmann í embætti.

Man ekki eftir atvikinu

Forsætisráðuneytið hefur áður greint frá því að Mette Frederiksen hafi fengið smávægilegan hálshnykk eftir höggið og að hún hafi verið flutt á Rigshospitalet til skoðunar.

Komið hefur fram að hinn 39 ára gamli maður muni ekki nákvæmlega eftir atvikinu þar sem hann var mjög ölvaður.

Maðurinn neitar sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert