Rússneskir bræður hlutu þungan dóm

Stjórnvöld í Rússlandi hika ekki við að dæma borgara sína …
Stjórnvöld í Rússlandi hika ekki við að dæma borgara sína til langrar fangelsisvistar fyrir að aðstoða Úkraínu í stríðinu. AFP/Natalia Kolesnikova

Þrír rússneskir bræður voru í dag dæmdir í sautján ára fangelsi fyrir tilraun sína til að komast yfir landamæri Rússlands til Úkraínu og ganga til liðs við hóp Rússa sem berst við hlið Úkraínumanna gegn Rússlandi. 

Rússnesk stjórnvöld hafa áður dæmt borgara sína til langrar fangelsisvistar fyrir að aðstoða Úkraínu í stríðinu, sem hófst eftir innrás Rússa árið 2022. 

Fundnir sekir um landráð

Þyngsta dóminn fékk hinn 24 ára Ioann Ashcheulov sem var dæmdur til sautján og hálfs árs fangelsisvistar á meðan bræður hans, Alexei 20 ára og hinn 19 ára Timofey fengu 17 ár hvor. Frá þessu greina rússneskir fjölmiðlar. 

Bræðurnir voru fundnir sekir um landráð, þátttöku í hryðjuverkahópi og fyrir ólöglega för sína yfir landamærin í júlí 2023. Ólíkt flestum sambærilegum málum fóru réttarhöldin ekki fram fyrir luktum dyrum. 

Telur sig ekki vera föðurlandssvikara 

„Ég tel að rússnesk stjórnvöld hafi framið risastóran glæp í nafni rússneska ríkisins, þann stærsta á 21. öldinni,“ sagði elsti bróðirinn Ioann Ashcheulov við dómsuppkvaðninguna. 

„Aðgerðir mínar... voru tilraun til að stöðva þennan glæp.“

Þá lagði hann áherslu á að hann teldi sig ekki vera föðurlandssvikara og kvaðst ekki skyldugur til að styðja allt sem ríkisstjórn landsins sem hann fæddist í væri að gera. 

Miðjubróðirinn Alexei Ashcheulov sagðist ekki líta á sig sem „hryðjuverkamann“ og yngsti bróðirinn Timofey sagði trú sína á því að hernaður Rússa í Úkraínu væri „glæpur“ hafa hvatt sig áfram. 

Bræðurnir eru synir rétttrúnaðarprestsins Igor Ashcheulov sem sinnir prestakalli í vesturhluta Lipetsk-héraðs. Fjallað var um fjölskylduna í rússneskum fjölmiðlum árið 2014 þegar heimili fjölskyldunnar var heimsótt og níu börn tekin af heimilinu vegna óviðunandi aðstæðna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert