Saka Frakka um hernaðarnjósnir

Vladimir Pútin Rússlandsforseti.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti. AFP

Rússneska leyniþjónustan FSB segir að franski ríkisborgarinn sem var handtekinn í Moskvu í síðasta mánuði hafi verið að njósna og reyna að öðlast hernaðarupplýsingar til að skaða Rússland.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FSB.

Laurent Vinatier, fræðimaður hjá svissneskum félagasamtökum, var handtekinn og ákærður fyrir brot gegn rússneskum lögum um erlenda fulltrúa í síðasta mánuði.

Skaða öryggi Rússlands

FSB segir Vinatier hafa safnað „upplýsingum af hernaðarlegum og hertæknilegum toga sem hægt væri að nota til að skaða öryggi rússneska sambandsríkisins“. Þrátt fyrir að FSB hafi ekki ákært Vinatier opinberlega hafa þarlend stjórnvöld áður handtekið menn fyrir sams konar brot og síðar borið alvarlegri ásakanir á þá.

Samkvæmt tilkynningunni eiga að vera hljóðupptökur af fundum Vinatier með rússneskum ríkisborgurum þar sem hann safnaði saman hernaðarlegum upplýsingum. Menn sem safna eða deila upplýsingum um herinn verður að skrá sig sem erlenda fulltrúa samkvæmt rússneskum lögum.

Mörg önnur sams konar mál

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur krafist þess að Vinatier verði tafarlaust sleppt úr haldi.

Á síðasta ári var blaðakonan Alsu Kurmasheva handtekin fyrir sams konar brot en hún skráði sig ekki sem erlendan fulltrúa og var hún sökuð um að dreifa röngum upplýsingum um rússneska herinn.

Í síðasta mánuði hófust svo lokuð réttarhöld yfir Evan Gershkovich, bandarískum fréttamanni, sem var handtekinn í mars á síðasta ári fyrir njósnir. Wall Street Journal, vinnuveitandi Gershkovich, sagði það ósanngjarnt.

Hvíta húsið og Gershkovich hafa bæði vísað ásökunum rússneskra stjórnvalda á bug og sagt þær tilhæfulausar. Rússar hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir ásökunum á hendur Gershkovich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert