Sunak sagður óttast það að tapa eigin þingsæti

Rishi Sunak mun leiða Íhaldsflokkinn í sögulegan ósigur á morgun, …
Rishi Sunak mun leiða Íhaldsflokkinn í sögulegan ósigur á morgun, ef marka má kannanir. AFP/Justin Tallis

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, er sagður óttast það að tapa þingsæti sínu í bresku þingkosningunum sem haldnar verða á morgun.

Samkvæmt heimildum Guardian hefur Sunak sagt trúnaðarmönnum að hann óttist að tapa í kjördæmi sínu, Richmond, í Jórvíkurskíri.

Ef svo færi að hann tapi sæti sínu á morgun þá yrði hann fyrst sitjandi forsætisráðherra í sögu Bretlands til að missa sæti sitt.

„Hann er mjög hræddur um ósigur“

Árið 2019 fékk hann 63% atkvæða í Richmond en eins og fjallað hefur verið um þá stefnir allt í sögulegan sigur Verkamannaflokksins.

„Hann er mjög hræddur um ósigur í Richmond. Hættan á að það gæti orðið mjótt á munum hefur náð til hans,” hefur dagblaðið eftir einum heimildarmanna sinna.

Fullviss um að hann haldi sætinu

Annar heimildarmaður úr Íhaldsflokknum hafnaði þessu þó alfarið.

„Forsætisráðherrann er þess fullviss að hann haldi sæti sínu,“ sagði hann við Guardian.

Skoðanakannanir hafa verið mismunandi en flestar benda þó til þess að Sunak eigi eftir að halda þingsæti sínu þrátt fyrir líklegan stórsigur Verkamannaflokksins á landsvísu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert