The Sun tekur afstöðu í kosningunum

Ris­hi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands og formaður Íhalds­flokks­ins, og Keir Starmer, …
Ris­hi Sunak, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands og formaður Íhalds­flokks­ins, og Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins. AFP

Breski fjölmiðillinn The Sun hefur lýst yfir stuðningi við Verkamannaflokkinn fyrir þingkosningarnar sem fara fram í Bretlandi á morgun. 

Kallað verður eftir breytingum á forsíðu fréttablaðs The Sun á morgun en í umfjöllun fjölmiðilsins frá því í dag segir að tími Verkamannaflokksins sé kominn.

Þá er Íhaldsflokkurinn, sem skipar nú meirihluta þingsæta breska þingsins, kallaður úreltur og klofningur innan flokksins gagnrýndur.

Áhrifaríkur fjölmiðill

Stuðningur fjölmiðilsins er þýðingarmikill, en hann hefur í gegnum tíðina haft mikil áhrif á framgang kosninga. Lýsti The Sun síðast yfir stuðningi með Verkamannaflokknum árið 1997, þegar Tony Blair varð forsætisráðherra. 

The Sun er hluti af alþjóðlega fjölmiðlafyrirtækinu News Corporation, sem á meðal annars Fox News, Wall Street Journal og The Times. 

Stórsigur í kosningunum líklegur

Greint var frá því í gær að allt bendi til þess að Verkamannaflokkurinn vinni stórsigur í kosningunum á morgun. Kom fram að kosningasigurinn verði mögulega sá stærsti í sögu breskra þingkosninga.

Samkvæmt könnunum var þá Verkamannaflokknum spáð 42% allra atkvæða en Íhaldsflokknum aðeins 23%. Þar sem um einmenningskjördæmi er að ræða myndi Verkamannaflokkurinn að öllum líkindum fá hlutfallslega mun fleiri sæti, eða hreinan meirihluta. Gangi sú spá eftir verður þetta versta frammistaða í sögu Íhaldsflokksins í þingkosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert