Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tvöfaldar forskot sitt á Joe Biden Bandaríkjaforseta í nýrri skoðanakönnun Times/Siena. 74% kjósenda telja Biden vera of gamlan fyrir starfið.
Dagblaðið New York Times greinir frá.
Joe Biden mælist með 43% fylgi meðal líklegra kjósenda á sama tíma og Donald Trump mælist með 49%.
Fyrir kappræðurnar þá munaði þremur prósentustigum á milli þeirra í könnun Times/Siena en núna munar sex prósentustigum. Því hefur Trump tvöfaldað forskot sitt á Biden frá síðustu könnun.
Frá árinu 2015 þá hefur Trump aldrei mælst með jafnmikið forskot í könnunum Times/Siena.
Forskot Trumps eykst enn meira ef litið er á skráða kjósendur. Þar mælist hann áfram með 49% en Biden mælist aðeins með 41%.
Alls telja 74% kjósenda Biden of gamlan til að gegna starfinu og hefur hlutfallið hækkað um fimm prósentustig frá því að kappræðurnar fóru fram í síðustu viku.
Áhyggjur af aldri Bidens hafa aukist um átta prósentustig meðal Demókrata frá því fyrir kappræður, en 59% Demókrata hafa nú áhyggjur af aldrinum.
79% af óflokksbundnum kjósendum hafa áhyggjur af aldri Bidens.
Eftir kappræðurnar vilja aðeins 48% af Demókrötum halda honum sem forsetaefni flokksins í komandi kosningum. Þó var talan ekki há fyrir kappræðurnar, en þá vildu 52% af Demókrötum halda honum sem forsetaefni.