Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt við einn sinn helsta bandamann að hann viti að hann geti ekki bjargað framboði sínu ef hann nær ekki að sannfæra almenning á næstu dögum um að hann geti sinnt starfinu.
Dagblaðið New York Times greinir frá þessu en greinir ekki frá nafni heimildarmannsins sökum nándar hans við forsetann.
Biden mætir í viðtal á föstudaginn hjá George Staphanopoulos á ABC News og að sögn bandamanns hans þá gerir Biden sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir hann að standa sig.
Biden þótti standa sig afar illa í kappræðunum á móti Trump í síðustu viku. Í þeim var forsetinn hás, átti á köflum erfitt með að gera sig skiljanlegan og gleymdi því hvað hann ætlaði að segja á einum tímapunkti.
„Hann veit að ef svona kemur fyrir tvisvar aftur, þá erum við komnir á annan stað,“ sagði heimildarmaðurinn.
Viðtal NYT við bandamann Bidens er fyrsta vísbending þess efnis, sem kemur fram opinberlega, að forsetinn íhugi alvarlega hvort hann geti náð framboðinu aftur á strik.
Háttsettur ráðgjafi forsetans segir í samtali við NYT, undir nafnleynd, að Biden átti sig vel á þeim pólitísku áskorunum sem hann glímir nú við.
Í kvöld mun hann funda með ríkisstjórum demókrata til að fullvissa þá um að hann sé hæfur í starfið.
Lloyd Doggett, þingmaður demókrata í fulltrúadeildinni, varð í gær fyrsti þingmaður flokksins til þess að kalla eftir því opinberlega að Biden mynda draga framboð sitt til baka.
Annar þingmaður demókrata sagði undir nafnleynd við CNN að það væri stór og vaxandi hópur þingmanna flokksins sem hefðu verulegar áhyggjur af framboði forsetans.