Hver er Keir Starmer?

Allt stefnir í að Starmer taki við sem forsætisráðherra á …
Allt stefnir í að Starmer taki við sem forsætisráðherra á næstu dögum. AFP/Paul Ellis

Allt virðist benda til þess að Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Bretlands. Útgönguspá segir að stórsigur sé í vændum, en hver er Starmer?

Starmer hefur verið á þingi í níu ár en starfaði þar á undan sem mannréttindalögmaður og saksóknari.

Starmer er 61 árs gamall og verður elsti maðurinn til þess að taka við embætti forsætisráðherra í Bretlandi í hálfa öld.

Hann er ekki sagður vera með mikla persónutöfra en margir álitsgjafar segja það mögulega vera einn af hans helstu styrkleikum í kjölfar stjórnartíðar fólks eins og Boris Johnsons, Liz Truss og Rishi Sunaks.

Keir Starmer hefur verið á þingi í níu ár.
Keir Starmer hefur verið á þingi í níu ár. AFP

Hefur breytt Verkamannflokknum

Hann státar sig af því að hafa breytt Verkamannaflokknum og eiga skoðanir hans rætur í raunsæi fremur en hugmyndafræði.

Hann hefur fært flokkinn meira í átt að miðjunni, vísaði Jeremy Corbyn, fyrrverandi formanni flokksins, úr flokknum og fór í vinnu við að uppræta gyðingahatur í flokknum. 

Vinstrimenn saka hann þó um svik fyrir að hafa fallið frá ýmsum loforðum sem hann gaf í farsælli leiðtogabaráttu sinni, þar á meðal að afnema skólagjöld í háskólum.

Vill höfða til verkalýðsins

Starmer er tveggja barna faðir og er harður stuðningsmaður knattspyrnuliðsins Arsenal. Í kosningabaráttunni þurfti hann að sýna þessa persónulegu hlið þar sem fólk tengdi ekki mjög við hann.

Hann hefur lagt mikla áherslu á það að flokkurinn höfði til verkalýðsins í landinu.

„Pabbi minn var verkfærasmiður, mamma mín hjúkrunarfræðingur,“ segir hann oft við kjósendur.

Pólitískir andstæðingar segja hann þó óheflaðan tækifærissinna sem skipti reglulega um afstöðu til málefna og hafi ekki sett fram skýra og afdráttarlausa framtíðarsýn fyrir landið.

Samkvæmt útgönguspá þá er Verkamannaflokkurinn að vinna stórsigur.
Samkvæmt útgönguspá þá er Verkamannaflokkurinn að vinna stórsigur. AFP/Andy Buchanan

Pólitískt miskunnarleysi

Hreinsun Starmers á hörðum vinstrimönnum úr flokknum varpar ljósi á pólitískt miskunnarleysi hans, en hann er sagður fyndinn í einrúmi og hliðhollur vinum sínum.

Hann sagði í kosningabaráttunni að hann myndi ekki vinna eftir klukkan 18 á föstudögum til að geta verið með eiginkonu sinni Victoriu og tveimur unglingum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert