Myrti fyrrverandi bekkjarfélaga sinn

Blaze Bernstein var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Newport …
Blaze Bernstein var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Newport Beach í Kaliforníuríki þegar hann hvarf. AFP/Sean M. Haffey/Getty Images

Samuel Woodward, 26 ára gamall karlmaður, hefur verið sakfelldur fyrir að hafa myrt fyrrverandi bekkjarfélaga sinn í menntaskóla árið 2018. Kviðdómur í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum komst að þessari niðurstöðu í gær. 

Bandaríska fréttaveitan ABC News greinir frá.

Var stunginn 28 sinnum

Blaze Bernstein, 19 ára samkynhneigður gyðingur og nemandi við Pennsylvaníuháskóla, hvarf í janúar árið 2018 er hann var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í borginni Newport Beach í Kaliforníuríki.

Eftir nokkra daga leit fannst lík hans grafið í garði í borginni Lake Forest í Kaliforníuríki, en hann hafði farið þangað með Woodward kvöldið sem hann hvarf. Bernstein hafði verið stunginn 28 sinnum.

Saksóknarar telja Woodward hafa myrt Bernstein vegna þess að hann var samkynhneigður. Woodward neitaði sök.

Greindur og umhyggjusamur drengur

Kviðdómurinn kvað upp dóm sinn í málinu í gær, en ekki er búið að ákveða hver refsing Woodward verður. Það má þó búast við því að hann verði dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Bernstein segir þrátt fyrir að það sé gott að það sé kominn dómur í málinu þá eigi fjölskyldan enn um sárt að binda. Fjölskyldan segir Bernstein hafa verið frábæra manneskju sem þau hlökkuðu til að sjá vaxa upp úr grasi. Hann hafi verið fyndinn, umhyggjusamur og greindur drengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert