Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, krefst svara frá Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðanda, um hvað hann eigi við með því þegar hann segir að hann geti fljótt bundið enda á stríðið í Úkraínu ef hann verði kjörinn forseti Bandaríkjanna á ný.
„Ef Trump veit hvernig hægt er að binda enda á stríðið ætti hann að segja okkur það núna,“ segir Selenskí í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna en sænska ríkisútvarpið greinir frá.
Selelnskí segir að Úkraína verði að geta undirbúið sig verði Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember, en eins og staðan núna lítur allt út fyrir að Trump beri sigurorð af Joe Biden í forsetakjörinu.
„Við viljum vita hvort við höfum mikinn stuðning Bandaríkjanna eða stöndum ein. Trump hefur sagt að ekkert bendi til þess að Úkraína sé að fara að vinna stríðið,“ segir Selenskí.