Vísindamenn fundu lík í regnfrakka

Stöðuvatnið Savalen í Innlandet þar sem tveir líffræðingar fundu lík …
Stöðuvatnið Savalen í Innlandet þar sem tveir líffræðingar fundu lík í stígvélum og regnfrakka á 25 metra dýpi á þriðjudaginn. Í baksýn gnæfir hið tignarlega Tronfjell. Ljósmynd/Wikipedia.org/Die Elfe von Os

Líffræðingarnir Johanna Järnegren og Silje Margrethe Nessjø Larsen frá Náttúrufræðistofnun Noregs gerðu síðdegis á þriðjudag uppgötvun sem hafði öllu djúpstæðari áhrif á þær en hrygningarsvæði bleikju sem þær höfðu verið að leita að í stöðuvatninu Savalen í Østerdalen í Innlandet-fylki, norður af höfuðborginni Ósló.

Þær Järnegren og Larsen voru niðursokknar í rannsóknir sínar á vesturhluta vatnsins, sem fóru þannig fram að þær sátu í bátkænu þaðan sem þær gerðu út fjarstýrðan kafbát er kortlagði botn vatnsins með tilliti til hrygningarstöðva bleikjunnar.

Það er Järnegren sem hefur fjarstýringuna með höndum og rýnir samtímis því á skjá tengdan myndavélum kafbátsins þegar hún kemur auga á eitthvað á 25 metra dýpi sem stingur í stúf við brúnan og leirkenndan jarðveginn á vatnsbotninum.

Greinilega gúmmístígvél

„Við héldum fyrst að þetta væri ruslapoki,“ segir Järnegren við norska dagblaðið VG, hún er yfirrannsakandi á stofnuninni sem í daglegu tali nefnist Nina, stytting á Norsk institutt for naturforskning. Larsen færði sig þá aftar í bátinn, þangað sem Järnegren sat við iðju sína, og leit á skjáinn með samstarfskonu sinni.

Järnegren færir kafbátinn nær vatnsyfirborðinu til að öðlast gleggri sýn yfir botninn og það er þá sem þær stöllur koma auga á það sem greinilega eru gúmmístígvél. „Þau lágu hlið við hlið, ekki eins og þeim hefði verið hent í vatnið,“ segir Larsen og kveður þeim Järnegren ekki hafa orðið um sel er þær komu auga á það sem stóð upp úr stígvélunum – leifar af mannabeinum.

„Okkur brá illilega, þetta var ekki sá fundur sem við höfðum átt von á,“ segir Larsen enn fremur, innt eftir viðbrögðum þeirra vísindamannanna. Áttuðu þær sig fljótlega á því að það sem þær höfðu við fyrstu sýn talið ruslapoka var regnfrakki sem eigandi beinanna hafði klæðst í lifandi lífi.

Engum vafa undirorpið

Järnegren notaði myndavélabúnað kafbátsins til að gera hvort tveggja upptöku og taka ljósmyndir af jarðnesku leifunum auk þess sem leysigeislabúnaður á tækinu gat sagt nákvæmlega til um stærð líkamsleifanna. „Við vildum tryggja okkur áreiðanlegt myndefni til að afhenda lögreglunni,“ segir Järnegren við VG.

Það var svo klukkan 19:50 á þriðjudagskvöldið, að norskum tíma, sem þær líffræðingarnir gerðu lögreglunni aðvart og héldu tæknimenn og kafarar lögreglu á vettvang í gærmorgun og hófu rannsóknir á vettvangi.

„Enginn vafi leikur á því að hér er um að ræða jarðneskar leifar manneskju,“ segir Hildegunn Tronsli, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Innlandet, í samtali við VG og bætir Anders Røe varðstjóri því við að lögreglu sé enn sem komið er ókunnugt um hve lengi leifarnar hafi legið á botni vatnsins. Þó sé ljóst að þær hafi legið þar um sinn.

Kennslanefnd Kripos gert aðvart

Lögregla færði líkið upp úr vatninu í gærdag og var það flutt á Réttarlæknisfræðistofnunina í Ósló til frekari rannsókna auk þess sem kennslanefnd rannsóknarlögreglunnar Kripos var gert aðvart. „Þessi fundur verður nú borinn saman við hugsanleg mannshvarfsmál,“ segir Tronsli ákæruvaldsfulltrúi, „eins og staðan er nú er okkur ekki unnt að tengja hann ákveðnu máli.“

Líffræðingarnir tveir, Järnegren og Larsen, kveðast hins vegar bera þá von í brjósti að fundur þeirra geti orðið einhverjum léttir – svo sem aðstandendum sem saknað hafi ástvinar um langa hríð. „Kannski fá ættingjar að vita hvað hafi gerst svo eitthvað jákvætt komi út úr þessu,“ segir Johanna Järnegren yfirrannsakandi að lokum.

VG

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert