Biður þjóðina afsökunar og axlar ábyrgð á ósigrinum

Rishi Sunak, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands. AFP/Henry Nicholls

Rishi Sunak, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, bað bresku þjóðina afsökunar þegar hann flutti ávarp fyrir utan Downingstræti í morgun.

Þingkosningar voru haldnar í Bretlandi í gær og hlaut Íhaldsflokkurinn sögulega slæma kosningu á meðan Verkamannaflokkurinn vann stórsigur.

„Við þjóðina vil ég fyrst og fremst segja: Fyrirgefið,“ sagði Sunak í upphafi ávarpsins þegar hann tilkynnti að hann myndi fara til Karls Bretakonungs til að afhenda honum afsögn sína. Jafnframt tilkynnti hann að hann ætli að láta af embætti formanns Íhaldsflokksins.

„Þið hafið gefið skýrt merki um að ríkisstjórn Bretlands verði að taka breytingum,” sagði Sunak en að hann hefði gefið sig allan í starf sitt sem forsætisráðherra.

Mikilvægt að flokkurinn fari í uppbyggingu

„Ég heyri reiði ykkar, vonsvikni og ég axla ábyrgð á þessum ósigri,“ sagði Sunak.

Hann sagðist trúa því að þjóðfélagið væri öruggara, sterkara, réttlátara og betra núna en það var árið 2010 þegar Íhaldsflokkurinn tók við stjórn landsins.

Það væri mikilvægt fyrir Íhaldsflokkinn eftir 14 ár við stjórnvölinn að fara í uppbyggingu en jafnframt að taka hlutverk sitt í stjórnarandstöðu alvarlega.

Sunak þakkaði starfsliði sínu, sjálfboðaliðum í Íhaldsflokknum og að lokum fjölskyldu sinni fyrir fórnir sínar.

„Þetta er erfiður dagur, sem kemur í kjölfar margra erfiðra daga,“ sagði Sunak.

Hann óskaði Keir Starmer, formanni Verkamannaflokksins, að lokum til hamingju með nýja embættið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert