Glæpagengið talið starfa um alla Evrópu

Glæpagengið er talið geta smyglað jafnvirði 75 milljóna króna í …
Glæpagengið er talið geta smyglað jafnvirði 75 milljóna króna í evrum á hverjum degi. AFP

Lögregluyfirvöld á Frakklandi og Spáni hafa með stuðningi Europol afhjúpað starfsemi öflugs kínversks glæpagengis sem talið er hafa stundað peningaþvott og smyglað um milljón evrum á dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol.

Frönsk yfirvöld hófu rannsókn málsins snemma árið 2021 í kjölfar þess að tollgæsla þarlendis gerði meira en hálfa milljón evra, sem fannst í leyndu hólfi í bifreið, upptæka. Reiðufé þetta nemur tæpum 75 milljónum íslenskra króna.

Glæpagengið starfrækt um alla Evrópu

Rannsóknin hefur leitt í ljós að málið varðar umfangsmikið peningaþvætti kínversks glæpagengis. Talið er að hópurinn hafi starfað um alla Evrópu frá árinu 2019, ef ekki lengur.

Áætlað er að glæpagenginu takist að smygla meira en milljón evrum dag hvern. Því hafi tekist það annars vegar í gegnum sölu vændis og falsaðra vara og hins vegar með því að svíkja undan skatti og tolli.

Leiðtogi gengisins handtekinn í vikunni

Fimm voru handteknir á Spáni í þessari viku vegna gruns um aðild að ofangreindri glæpastarfsemi.  Voru þeir handteknir í kjölfar húsleita spænskra löggæsluyfirvalda og Europol, en meðal þessara fimm er leiðtogi glæpagengisins.

Leitað var á heimilum, í höfuðstöðvum fyrirtækja, vöruhúsum og veitingastöðum í Madríd, Valencia, Alicante og Barcelona. Voru þá nærri 160.000 evrur, eða tæpar 24 milljónir íslenskra króna, gerðar upptækar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert