Nordea sagður hafa þvættað 540 milljarða

Nordea.
Nordea. AFP

Dönsk stjórnvöld saka norræna bankann Nordea um að hafa þvættað 3,5 milljarða evra, eða rúma 540 milljarða íslenskra króna, fyrir rússneska viðskiptavini sína, að sögn saksóknara í landinu.

„Nordea rannsakaði ekki nógu vel millifærslur rússneskra viðskiptavina bankans og hunsaði viðvaranir um erlend viðskipti í Kaupmannahöfn,“ sagði í yfirlýsingu.

Meint peningaþvætti átti sér stað á árunum 2012 til 2015. Nordea, sem er með bækistöðvar í Helsinki, sagðist búast við að þurfa að greiða sekt vegna málsins. Bankinn viðurkennir einnig að við þó nokkur tækifæri á þessum tíma hafi glufur verið að finna í kerfi þeirra og aðferðafræði í baráttunni gegn fjársvikum.

Frá árinu 2015 hafi bankinn varið 11 milljörðum danskra króna, eða um 230 milljörðum íslenskra króna, til að koma í veg fyrir glæpi sem þessa. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöld í málinu hefjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert