Ríkisstjóri hvetur Biden til að hlusta á þjóðina

Maura Healy er konan í bláu kápunni.
Maura Healy er konan í bláu kápunni. AFP/mandel Ngan

Demókratinn Maura Healy, ríkisstjóri Massachusetts, hefur beðið Joe Biden Bandaríkjaforseta að íhuga vandlega hvort að hann „sé enn besta von okkar til að sigra Donald Trump“.

Ríkisstjórar Demókrataflokksins funduðu með Biden á miðvikudaginn og var Healy á fundinum.

Hún er nú fyrsti ríkisstjórinn sem tekur af skarið og biður Biden opinberlega um að íhuga framboð sitt vandlega.

Biður hann um að meta framboðið vandlega

„Ég veit að hann er sammála um að þetta eru mikilvægustu kosningarnar á okkar ævi. Besta leiðin fram undan er ákvörðun sem forsetinn þarf að taka.

Á næstu dögum hvet ég hann til að hlusta bandarísku þjóðina og vandlega meta það hvort að hann sé enn besta von okkar til að sigra Donald Trump,“ segir hún í yfirlýsingu.

Hún tekur það fram að óháð því hvað Biden ákveður að gera, þá muni hún gera allt í sínu valdi til að sigra Trump.

Kveðst þurfa meiri svefn

Heimildir CNN herma að nokkur ummæli Bidens á fundi hans með ríkisstjórunum hafi vakið upp óánægju meðal þeirra.

Biden tjáði þeim það að hann þyrfti að fá meiri svefn og að hann myndi hætta að halda viðburði eftir klukkan 20 á kvöldin. Þá sagði hann brandara sem féll ekki vel í kramið hjá öllum.

„Ég er í góðu lagi, ég veit samt ekki með heilann á mér,“ sagði hann.

Tveir demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa skorað á Biden að draga framboð sitt til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert