Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum sem fóru fram í Bretlandi í gær.
Síðustu fjórtán ár hefur Íhaldsflokkurinn, sem er hægriflokkur, farið með völd í Bretlandi. Rishi Sunak, forsætisráðherra og leiðtogi íhaldsmanna, hefur óskað Starmer til hamingju með góða kosningu og lofað friðsamlegum valdaskiptum.
Starmer hefur verið á þingi í níu ár en starfaði þar á undan sem mannréttindalögmaður og saksóknari. Hann er 61 árs gamall og verður elsti maðurinn til þess að taka við embætti forsætisráðherra í Bretlandi í hálfa öld.
Starmer ávarpaði stuðningsmenn sína í nótt þegar ljóst var að Verkamannaflokkurinn hefði unnið stórsigur. Hann lofaði breytingum og sagði meðal annars: „Landið í fyrsta sæti, flokkurinn í annað sæti.“
Enn hafa ekki öll atkvæði verið talin en eins og staðan er núna er Verkamannaflokkurinn með 408 þingsæti og Íhaldsflokkurinn með 115. Alls eru þingsætin á breska þinginu 650 talsins.